4.des.2008

Samkeppni um pysjuhótel

04.12.2008
Pysjueftirlitið Brúsi bjargfasti hefur verið starfrækt frá 2003 en það er fólgið í því að krakkar sem finna lundapysjur vigta pysjurnar og skila inn gögnum eða koma með þær á Nárttúrugripa- og fiskasafnið þar sem þær eru vigtaðar og vængmældar. Þannig er hægt að fylgjast með ástandi pysjanna og hvenær þær yfirgefa holurnar.
Alltaf eru einhverjar af pysjunum of litlar og dúnaðar til að vera sleppt strax í sjóinn en þá eru þær hafðar á safninu í einhverja daga þar sem þeim er gefin loðna að éta. Þegar þær hafa náð góðri líkamsþyngd þá er þeim sleppt. Einnig er komið með olíublautar pysjur á safnið þar sem þær eru hreinsaðar.
Í lok pysjutímabilsins 2007 var hátt hlutfall af litlum og dúnuðum pysjum. Þær voru hafðar í pappakössum í bakherbergi og brátt varð vart þverfótað fyrir pappakössum þar. Þá kviknaði sú hugmynd að hafa samkeppni um hönnun á góðri aðstöðu fyrir þessar pysjur undir nafninu Pysjuhótel. Að samkeppninni stóðu Náttúrugripa-og fiskasafn Vestmannaeyja, Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Sparisjóður Vestmannaeyja.
Vorið 2008 fór fram samkeppni meðal grunnskólabarna í Vestmannaeyjum um hönnun á pysjuhóteli. Hugmyndaauðgi krakkanna var ótrúleg og frábærar hugmyndir bárust í samkeppnina. Sparisjóður Vestmannaeyja veitti verðlaun í samkeppninni en hann er einnig styrktaraðili pysjueftirlitsins. Verðlaunin voru veitt þann 7. nóvember s.l. við opnun sýningarinnar „Sambýli manns og lunda“ í Náttúrugripa- og fiskasafni Vestmannaeyja.
Hugmynd Kristberg Gunnarssonar hlaut fyrstu verðlaun. Hugmyndin var bæði sniðug og vel útfærð. Einnig þótti hún henta mjög vel fyrir aðstöðuna á Náttúrugripa-og fiskasafninu og ákveðið var að smíða pysjuhótel eftir hugmyndinni, sem verður notað á næsta pysjutímabili.
Hugmynd Kristbergs: Glæra 1 og Glæra 2
Fimm önnur verkefni deildu með sér verðlaunum fyrir 2.-3. sætið, því of erfitt reyndist að gera upp á milli þeirra. Krakkarnir sem komu að þeim heita ArnarGauti Grettisson, Magnús Karl Magnússon, Guðdís Jónatansdótir, Konrad Parasinski, Hlynur Georgsson, Eydís Ösp Karlsdóttir og Sara Hlín Sölvadóttir.
Hugmynd Arnars Gauta og Magnúsar Karls: Glæra 1 og Glæra 2
Hugmynd Guðdísar: Glæra 1
Hugmynd Konrads: Glæra 1 og Glæra 2
Hugmynd Hlyns: Glæra 1
Hugmynd Eydísar og Söru: Glæra 1 og Glæra 2
Verðlaunaafhendingin var haldin á safnanótt og myndir frá hátíðinni má sjá í myndasafni Setursins. Myndirnar eru teknar af kristjáni Egilssyni, forstöðumanni Náttúrugripa- og fiskasafns Vestmannaeyja.