Lifandi loðna á Fiskasafninu

09.03.2010
Í gærkvöldi kom áhöfnin á Sighvati Bjarnasyni með lifandi loðnu á Fiskasafnið. Höfðu þeir verið á veiðum í Faxaflóa. Um var að ræða 250-300 loðnur af báðum kynjum, sem voru komnar langt í hrygningarþroska. Þeim var flestum komið fyrir í sama búrinu sem tekur um 4000 lítra með sandi á botninum.  Þar halda þær hópinn og synda um í lítilli torfu, sem reyndar virkar mjög stór í búrinu.

Í morgun þétti torfan sig í eitt hornið og tók að róta upp sandinum á botni búrsins. Eitt og eitt par tók sig út úr hópnum og synti þétt saman eftir botninum. Því hefur verið lýst að við hrygninguna festi hængurinn hrygnuna við hlið sér og parið þjóti síðan saman um botninn og láti fátt stoppa sig. Hængurinn hefur mjög stóran og öflugan raufarugga sem hann notar til að mynda rás í sandinn en hrygnan setur síðan hrognin þar ofan í. Hrygning hjá hverju pari tekur aðeins nokkrar sekúndur. Að hrygningu lokinni er talið að allir hængarnir drepist og lang flestar hrygnurnar.  Klakið tekur um 2-3 vikur og vonumst við til að geta haldið lifandi einhverjum seiðum og framvegis haft loðnur í búrunum að staðaldri.

Ath. að fjölmargar myndir eru komnar í myndasafnið, hér kemstu þangað!