Opnun Sagnheima

07.07.2011
 Laugardaginn 2. júlí sl. opnaði Byggðasafn Vestmannaeyja á ný við hátíðlega athöfn eftir miklar endurbætur.
 
 Sagnheimar - Byggðasafn

 

Laugardaginn 2. júlí sl. opnaði Byggðasafn Vestmannaeyja á ný við hátíðlega athöfn eftir miklar endurbætur. Jóhanna Ýr Jónsdóttir, Sæþór Orri Guðjónsson og Þórður Svansson báru hitann og þungann af breytingunum. Auk þeirra kom fjöldi fólks að verkefninu og aðstoðuðu við myndvinnslu, textagerð og talsetningu. Um 600 manns komu á sýninguna þessa fyrstu sýningarhelgi.

 

Safnið hefur verið fært til nútímahorfs, upplýsingar auknar og tölvutæknin nýtt á skemmtilegan hátt í viðbót við muni safnsins. Þar má fræðast um lífsbjörg Eyjamanna, sjósókn, bjargveiðar og fiskvinnslu auk þess sem einstakir þættir sögunnar eru kynntir. Má þar nefna Heimaeyjargosið, Tyrkjaránið, Herfylkinguna og íþróttasöguna að ógleymdri Þjóðhátíð. Einnig eiga konur sérstakan sess á safninu.

                                                               

Jóhanna Ýr Jónsdóttir, sem verið hefur forstöðumaður safnsins undanfarin ár og átti stóran þátt í breytingunum hefur nú ákveðið að snúa sér að öðrum verkefnum. Við starfi hennar tekur Helga Hallbergsdóttir.

 

Opnunartími safnsins er frá kl. 11 – 17 alla daga vikunnar til loka septembers.