40 manns tóku þátt á hádegiserindi í Þekkingarsetrinu, sem fram fór á Zoom þriðjudaginn 19. janúar s.l. Erindið bar heitið: Rannís styrki fyrir sjávarútveg og skattafrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna – Síldarvinnslan og Skinney-Þinganes.
Frá upphafi árs 2018 hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg. Erindin hafa bæði farið fram í Þekkingarsetrinu og á Zoom. Erindin á Zoom hafa verið öllum opin. Erindin eru mjög fjölbreytt og eiga erindi við fjölbreyttan hóp fólks sem starfar í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Þetta erindi er hið 21. í þessari röð sjávarútvegserinda. Fyrri erindi er hægt að sjá á heimsíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja hér
Markmiðið með þessum erindum okkar er að hrista fólk í sjávarútvegi saman og draga fram áhugaverða hluti sem tengjast sjávarútvegi, þannig að fólk taki eitthvað nýtt með sér af erindunum. Í senn er þetta umræðu-, félags- og fræðsluvettvangur.
Aðalframsögumaður þessa erindis var Kolbrún Bjargmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís. Kolbrún fór yfir árangurshlutfall sjávarútvegsins hjá Rannís og ýmsa tölfræði því tengdu s.s. fjárhæðir, árangurshlutfall o.fl. Hún fór einnig yfir þá Rannís styrki sem sjávarútvegurinn getur nýtt sér og það stoðkerfi sem er í boði. Kolbrún lagði sérstaka áherslu á umfjöllun um skattafrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna. Þarna eru gríðarleg tækifæri fyrir sjávarútveginn og greinilegt af umræðum og spurningum í erindinu að mikill áhugi er til staðar. Kolbrún náði ekki að fara yfir allar kynningarglærurnar, enda voru þær hlaðnar áhugaverðum upplýsingum sem áhugasamir aðilar geta kynnt sér betur með að hlaða niður glærunum hér
Á eftir erindi Kolbrúnar ræddu þeir Guðmundur H. Gunnarsson, nýsköpunarstjóri hjá Skinney-Þinganes og Sindri Sigurðsson, verkefna- og þróunarstjóri hjá Síldarvinnslunni um það hvernig málefnið lítur út frá sjónarhóli aðila í atvinnulífinu og hvernig þeir hafa verið að nálgast þessi mál.
Fjölmargar spurningar komu fram meðan á erindinu stóð, enda er það eitt af markmiðum erindanna að fá fram spurningar og svör við þeim.
Myndupptaka af erindinu er hér
Fiskifréttir gerðu erindinu m.a. skil í sérstöku blaði um Nýsköpun í sjávarútvegi – sjá hér
Ýtarlegar upplýsingar um verkefni sem Rannís flokkar sem sjávarútvegsverkefni og styrkt hafa verið frá árinu 2015 er hægt að finna hér
Ríkisskattstjóri birtir upplýsingar um fyrirtæki sem hlotið hefur staðfestingu frá Rannís ef fjárhæð skattafrádráttarins er yfir tilteknum mörkum. Frá og með árinu 2019 hefur verið miðað við 500.000 evrur á ári. Vefslóð á upplýsingarnar er hér. Á vefslóðinni er listi yfir fyrirtæki sem hafa verið staðfest frá árinu 2017. Þetta eru þau opinberu gögn varðandi skattfrádrátt vegna R&Þ verkefna sem RSK lætur frá sér sem eru greinanleg niður á fyrirtæki.
Þeir sem vilja fá tilkynningar um erindin, s.s. áminningar og samantektir geta sent tölvupóst á hrafn@setur.is og verður viðkomandi þá bætt á póstlista með þessu efni.
Næsta erindi er fyrirhugað í febrúar og verður það auglýst þegar nær dregur