Erindi – 30. október 2018
Þriðjudaginn 30. október hélt Daði Már Kristófersson, umhverfis- og auðlindahagfræðingur erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Rúmlega 20 manns mættu á erindi Daða. Erindið er hluti af mánaðarlegum erindum um sjávarútveg sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur fyrir aðila í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum. Erindið er það 6 í röðinni á þessu ári í þessum málaflokki. Erindi Daða fjallaði m.a. veiðigjöld: forsendur, áhrif og skiptingu þeirra. Fram kom í erindinu að lögaðilar í Vestmannaeyjum greiddu 1181 mkr. í veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2017/2018, eða um 10,5% af heildarveiðigjöldum. 4 stærstu fyrirtækin greiddu þar af 1008 mkr. eða 85% af gjöldunum í Eyjum.
Í lok erindisins fjallaði hann um hvers vegna ætti að deila tekjum af veiðigjöldunum. Nefndi hann 3 atriði í því samhengi. Rökin fyrir því eru m.a. þau að það eru neikvæð áhrif framseljanleika aflaheimilda á byggðaþróun. Það eru óumflýjanleg áhrif hagræðingar á fjölda starfa í sjávarútvegi og í þriðja lagi að sanngirnissjónarmið þurfa að liggja að baki.
En, hver eru möguleg áhrif á samfélag eins og Vestmannaeyjar? Daði nefndi að nokkur áhætta væri undirliggjandi í samfélagi eins og í Vestmannaeyjum sökum hlutfallslegrar stærðar sjávarútvegsins af atvinnulífinu í Eyjum. Deiling auðlindagjaldsins beint til sjávarútvegssveitarfélaganna gæti minnkað áhrifin af þeirri áhættu. Veiðigjöld kalla á aukna hagræðingu í sjávarútveginum sem aftur bitnar á fjölda starfa. Áhrif þess á sveitarfélög geta verið nokkuð mikil þar sem rekstur sveitarfélaga byggist að stórum hluta af útsvari af launatekjum. Í dag er það þannig að veiðigjöld skila sér beint í ríkissjóð en ekki beint til sveitarfélaga og það sama á við um tekjuskatt fyrirtækja sem eykst við bætta afkomu fyrirtækja sem getur verið afleiðing hagræðingar. Því er nokkur undirliggjandi áhætta sem forsvarsfólk sveitarfélaga þarf að vera meðvituð um.