Staða huamrstofnsins við Íslandsstrendur veldur miklum áhyggjum, næstminnsti kvóti í sögu humarveiða var gefin út fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 eða 1.150 tonn. Aflabrögð hafa í ofaná lag verið dræm en einungis náðist að veiða 53% af aflaheimildum fiskveiðiársins. Við íslandsstrendur er humar einungis veiddur í humarvörpu og því spurning hvort við íslendingar þurfum ekki að horfa til gildruveiða sem eru víða stundaðar erlendis með góðum árangri. Þekkingarsetur Vestmannaeyja vann að rannsóknum á gildruveiðum og meðhöndlun á humri fyrir markaði með lifandi humar í verkefni sem styrkt var af Evrópuráðinu á árunum 2009 til 2012 (CRUSTACEA). Í myndbandinu hér að neðan má sjá í grófum dráttum hvernig algengt er að gildruveiðar fara fram og hvernig humarinn er meðhöndlaður þegar um borð kemur, á leið til lands og síðan geymdur við lágt hitastig þar til hann er seldur á markað. Gildruveiðum fylgja margir kostir en þar má nefna minna um óæskilegan meðafla, minni áhrif veiðafærisins á búsvæði humarsins og skelbrot verður takmarkað eða ekkert. Auk þess sem að jafnaði fæst mikið hærra verð fyrir veitt kílo af humri og þá sér í lagi ef aðstaða er til að geyma humarinn og selja lifandi á markað.
Myndböndin eru tekin upp um borð í rannsóknabátnum á árunum 2008 til 2013. Upptökur og klippingu annaðist Páll Marvin Jónsson.