Daníel Freyr Jónsson hefur verið ráðin hjá Umhverfisstofnun með aðsetur hér í Þekkingarsetri Vestmannaeyja, mun hann taka við af henni Þórdísi Vilhelmínu sem er farin í önnur verkefni innan stofnunarinnar.
Daníel Freyr er uppalinn Selfyssingur en fluttist til Reykjavíkur árið 2013 á meðan hann var í námi.
Hann lærði jarðfræði í HÍ, kláraði þar bæði grunnnám og meistaranám. Meistaranámið kláraði hann í fyrra og hóf svo störf hjá Umhverfisstofnun í vetur. Meðfram náminu starfaði hann sem hellaleiðsögumaður í Raufarhólshelli og hefur líklega komið þar inn u.þ.b. 1000 sinnum.
Hjá Umhverfisstofnun starfar Daníel sem sérfræðingur í náttúruverndarteymi. Þar hefur hann umsjón með náttúruverndarsvæðum á Suðurlandi, þar á meðal Surtsey, Skógafossi, Dyrhólaey, Fjaðrárgljúfri og Ingólfshöfða. Mun hann taka við Surtseyjar-hluta starfsins af Þórdísi Vilhelmínu.
Starfið felur í sér eftirlit með svæðunum, gerð verndaráætlana og annarrar stjórnsýslu. Mörg þessara svæða eru undir miklu álagi sökum þess fjölda ferðamanna sem heimsækir þau og er afar brýnt að gæta þess að þau tapi ekki náttúrulegum einkennum sínum sem gera þau svo eftirsótt fyrir ferðamenn.
Hvað finnst honum Daníel um eyjuna eftir komu sína ?
Mér hefur liðið mjög vel í Eyjum eftir að ég kom hingað. Unnustan mín, Berglind Hrönn, er enn uppi á landi þar sem hún er að klára sitt nám í málfræði, en stefnan er að hún komi með sumrinu. Fólkið er frábært og ég nýt þess að vera hér í svo mikilli nálægð við náttúruna!