Erindi – 27. maí 2019
Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri Marós í Þýskalandi með sjávarútvegserindi í Vestmannaeyjum.
Mánudaginn 27. maí 2019 hélt Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri Marós í Cuxhaven í Þýskalandi áhugavert sjávarútvegserindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Á þriðja tug áhugasamra aðila mætti í Setrið til að hlýða á Óskar.
Erindið er hluti af mánaðarlegum erindum um sjávarútvegsmál sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur fyrir aðila í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum og er hið 13 í röðinni frá upphafi.
Óskar fór yfir stuttlega yfir þann tíma frá því hann ólst upp í Eyjum og hvernig hann endaði í Þýskalandi. Í hans huga var þetta þróun úr björgun verðmæta í verðmætasköpun. Hann fór vel yfir þýska markaðinn í erindinu og sérstaklega fór hann yfir gullkarfamarkaðinn, enda er fyrirtæki hans Marós sérhæft í sölu og markaðssetningu á gullkarfa. Óskar hefur gríðarlega reynslu og þekkingu á sölu á sjávarafurðum, ekki síst á þýska markaðinum.
Í erindinu fór hann um víðan völl. Óskar fjallaði um svokölluð megatrend og þróun sem er að eiga sér stað í neyslu- og kaupmynstri fólks. Að lokum setti hann fram áhugaverða hugmynd um stefnu sem fyrirtæki í Vestmannaeyjum geta tekið í sjávarútveginum og kallaði hugmyndina Westmann Islands VE 900.
Óskar svaraði fjölmörgum spurningum gesta og sköpuðust góðar umræður í kringum þær.
Þekkingarsetrið þakkar Óskari fyrir áhugavert erindi.
Upptöku af erindinu er hægt að sjá hér að neðan auk þess sem glærur eru aðgengilegar í tengli hér að neðan.
Hlé verður gert á sjávarútvegserindum núna yfir hásumarið og verður þráðurinn tekinn upp að nýju í september. Margt spennandi verður á dagskránni í haust og mun m.a. Eyjamaðurinn Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood / Seagold í Bretalandi halda erindi haustið 2019.
Gleðilegt sumar!
Athugið að vegna tæknilegra mistaka vantar örlítið aftan á erindið, biðjumst við velvirðingar á því.