Við hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja viljum vekja athygli námsmanna á því að á vefnum rannis.is er nú auglýst eftir umsóknum í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Þekkingarsetrið veitir nemendum sem vinna að rannsóknarverkefnum er tengjast Vestmannaeyjum á einn eða annan hátt aðgang að vinnuaðstöðu og leiðsögn eins og kostur er og ef þess er óskað kynnt nemendur fyrir atvinnulífinu í Eyjum. Hvetjum við nemendur sem hafa áhuga á að vinna við fag sitt í sumar í Vestmannaeyjum að hafa samband við undirritaða.
Páll Marvin Jónsson: pmj@setur.is
Auglýsing Rannís.
Í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu hefur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna ákveðið að opna fyrir nýjar umsóknir frá og með miðvikudeginum 8. apríl. Umsóknarfrestur verður til 4. maí nk.
Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Frá stofnun 1992 hefur sjóðurinn unnið sér nafn og gott orð fyrir vinnu mörg hundruð námsmanna og verkefna sem þeir hafa leyst af hendi fyrir tilstyrk sjóðsins.
Sjóðurinn heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og hafa stjórnvöld, sem hluti af aðgerðum til að örva atvinnulífið, aukið fjármagn til sjóðsins um 100 m. kr. á þessu ári, sem er ríflega tvöföldun á úthlutunarfé sjóðsins.
Niðurstöður úthlutunar styrkja til þeirra umsókna er bárust fyrir áður kynntan umsóknarfrest 5. febrúar munu liggja fyrir 17. apríl, umsækjendur fá tilkynningu í vefpósti og úthlutun verður einnig aðgengileg á heimasíðu sjóðsins.
Þeir sem sóttu um fyrir 5. febrúar og eru að bíða eftir niðurstöðu stjórnar eru beðnir um að bíða þar til úthlutun er birt. Umsækjendur sem ekki fá framgang eru hvattir til að endurskoða umsókn sína og senda nýja og endurbætta umsókn fyrir 4. maí næstkomandi. Stefnt verður að úthlutun vegna nýrra umsókna uppúr miðjum maí.
Nánari upplýsingar á síðu sjóðsins
Hverjir geta sótt um?
- Háskólanemar í grunn- og meistaranámi við íslenska háskóla.
- Sérfræðingar innan fyrirtækja, stofnana og háskóla sem óska eftir að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsóknir.
Sótt er um í gegnum rafrænt umsóknarkerfi Rannís.
Nánari upplýsingar, reglur og leiðbeiningar er að finna á síðu Nýsköpunarsjóðs námsmanna.
Einnig er hægt að senda fyrirspurn á nsn@rannis.is