Frá upphafi árs 2018 hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg. Erindin hafa bæði farið fram í Þekkingarsetrinu sem og á Zoom. Erindin á Zoom hafa verið öllum opin. Erindin eru mjög fjölbreytt og eiga erindi við fjölbreyttan hóp fólks sem starfar í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Þetta erindi er hið 22. í þessari röð sjávarútvegserinda. Fyrri erindi er hægt að sjá á heimsíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja hér
Markmiðið með þessum erindum okkar er að hrista fólk í sjávarútvegi saman og draga fram áhugaverða hluti sem tengjast sjávarútvegi, þannig að fólk taki eitthvað nýtt með sér af erindunum. Í senn er þetta umræðu-, félags- og fræðsluvettvangur.
Aðalframsögumaður þessa erindis var Jónas Rúnar Viðarsson, sviðsstjóri verðmætasköpunar hjá Matís. Markmiðið með erindinu var að hvetja til umræðu um aukna vinnslu á íslensku sjávarfangi til útflutnings – hvaða áskorunum íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir og hvar möguleg tækifæri geta legið. Erindið var tvískipt.
Í fyrri hlutanum fjallaði Jónas um þróun í fiskvinnslu á Íslandi og leitaðist við að svara þeirri spurningu hvort að íslensk fyrirtæki geti nálgast neytendur í meira mæli en hingað til eða hvort þau séu dæmd til að vera fyrst og fremst hráefnisframleiðendur fyrir erlenda aðila. Jónas tók nokkur dæmi um verð á útfluttum afurðum frá Íslandi og síðan fullunnum vörum út úr búð. Hann fór yfir magn af óunnum fiski sem flutt var út frá Íslandi árið 2020. Í heild var flutt út tæp 82 þús. tonn af óunnum fiski, þar af var 53 þús. tonn af botnfiski og 26 þús. tonn af eldisfiski, fyrst og fremst laxi. Mikill vöxtur hefur verið í útflutningi á óunnum fiski ef borin eru saman árin 2015 og 2020. Fjórföldun í magni af þorski, tvöföldun í ýsu og 28 földun í ufsa. Það er því umtalsvert magn af fiski sem hægt væri að vinna frekar á Íslandi. Í þessu samhengi þá var á árinu 2020 flutt út 93 þús. tonn af ferskum og frosnum þorskafurðum fyrir um 100 ma.kr.
Jónas tók nokkur dæmi um útflutningstilraunir Íslendinga á sjávarfangi og velti upp ýmsum ástæðum sem mögulega gætu skýrt út hvers vegna fullvinnsla á Íslandi er ekki meiri en hún er. Hann velti upp ýmsum þáttum sem mögulegum ástæðum s.s. tollar, íslenska krónan, hár launakostnaður, fjarlægð frá mörkuðum og aðgengi að þeim. Jónas tók dæmi um framleiðslueiningar erlendis sem eru í eigu Íslendinga, þar sem verksmiðjurnar eru í flestum tilvikum nálægt mörkuðunum.
Niðurstaða Jónasar var að íslenskur sjávarútvegur er aðallega á B2B bulk framleiðslu, þar sem áframvinnsla eða fullvinnsla fer fram erlendis. Ýmislegt hefur verið reynt til að stuðla að aukinni vinnslu innanlands, en með litlum árangri. Það eru tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í fullvinnslu, en líka mikið af áskorunum. Viss tækifæri eru í breyttri kauphegðun s.s. netsölu. Einnig getur sjálfvirkni og hátt tæknistig á Íslandi skapað tækifæri að hans mati. Jónas velti því einnig fyrir sér hvort að tækifærin til skemmri tíma séu í að taka smærri skref í átt að beinni sölu til neytenda og aukinni verðmætasköpun á þann hátt.
Í seinni hlutanum fjallaði Jónas um nokkur vel valin sjávarútvegstengd rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem Matís hefur komið að, tengd frekari vinnslu eða fullvinnslu. Þá bæði verkefni sem hafa skilað góðum árangri, sem og nokkur sem hafa ekki skilað því sem að var stefnt. Jónas ræddi mikilvægi þess að rýna bæði í verkefni sem hefðu gengið vel sem og verkefni sem hefðu ekki gengið upp.
Áhugaverðar umræður sköpuðust í lok erindisins þar sem þátttakendur í lögðu orð í belg og dýpkuðu umræðuna enn frekar. Rætt var um ýmsar áskoranir sem fyrirtækin standa frammi fyrir tengt málefninu, samkeppnisstöðu og rannsóknar- og þróunarstyrki, svo fátt eitt sé nefnt.
Myndupptaka af erindinu er hér
Glærur sem Jónas notaði í erindi sínu eru hér
Fiskifréttir fjölluðu um erindið – sjá hér
Bændablaðið fjallaði um erindið – sjá hér
Við viljum þakka Jónasi fyrir áhugavert erindi og fyrir að leggja sitt af mörkum inn í umræðuna.
Þeir sem vilja fá tilkynningar um erindin, s.s. áminningar og samantektir geta sent tölvupóst á hrafn@setur.is og verður viðkomandi þá bætt á póstlista með þessu efni.
Næsta erindi er fyrirhugað í seinni hluta mars og verður það auglýst fljótlega