Tæplega þrjátíu þátttakendur tóku þátt í áhugaverðu hádegiserindi um sjávarútvegsmál í Þekkingarsetrinu sem haldið var þann 26. maí s.l. Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman hélt gríðarlega áhugavert erindi sem bar yfirskriftina: Fullvinnsla íslensks sjávarfangs í neytendapakkningar – tækifæri eða feigðarflan?
Frá upphafi árs 2018 hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg. Erindi Elíasar var hið 25 í röðinni. Fyrri erindi er hægt að sjá á heimsíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja hér. Erindin hafa bæði farið fram í Þekkingarsetrinu sem og á Zoom. Erindin á Zoom hafa verið öllum opin. Erindin eru mjög fjölbreytt og eiga erindi við fjölbreyttan hóp fólks sem starfar í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Markmiðið með þessum erindum okkar er að hrista fólk í sjávarútvegi saman og draga fram áhugaverða hluti sem tengjast sjávarútvegi, þannig að fólk taki eitthvað nýtt með sér af erindunum. Í senn er þetta umræðu-, félags- og fræðsluvettvangur.
Elías fór yfir mjög fjölbreytt efni í erindin sínu um starfsemi Fisherman, allt frá stofnun um aldamótin til dagsins í dag. Hann lýsti þeirri sterku tengingu sem fyrirtækið hefur við sjávarþorpið Suðureyri við Súgandafjörð á Vestfjörðum og góðri tenginu sem vörumerkið hefur við staðinn og samspil ferðaþjónustu við rekstur fyrirtækisins.
Elías rakti þróunarsögu fyrirtækisins, frá sölu í verslunum innanlands, rekstur á fiskisjoppu og allt fram til núverandi útflutnings á sjávarafurðum í neytendapakkningum. Fyrirtækið er á mikilli siglingu þar sem vöruúrval félagsins eykst stöðugt – sjá hér. Vörumerkið Fisherman fékk góða umfjöllun þar sem Elías skýrði m.a. út fyrir hvað Fisherman stendur fyrir, vörumerkjavirði, tenging þess við bragð o.fl.
Elías lýsti aðgreiningarþáttum vörumerkisins, ræddi um kolefnisspor varanna, rekjanleika, fjárfestingar fyrirtækisins, umbúðir fyrir alþjóðlegan markað og þau framleiðslukerfi sem fyrirtækið vinnur með. Hann lýsti styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum fyrirtækisins og næstu skrefum sem fyrirtækið er að leggja í s.s. sókn á fleiri markaði, byggingarframkvæmdir o.fl.
Það er ekki annað hægt að lesa úr erindi Elíasar en að hann er sannfærður um að það sé tækifæri í fullvinnslu íslensks sjávarfangs í neytendapakkningar og að sú vegferð sem Fisherman er á sé hreint ekkert feigðarflan. Elías komst m.a. svo að orði: „Það hefur lengi verið mýta á Íslandi að fullvinnsla sjávarafurða í neytendapakkningum gangi ekki upp. Það er ekki lengur tilfellið, en við erum stundum bara klaufar í að segja frá því.“
Í lokin svaraði Elías nokkrum spurningum áður en klukkan sló eitt og erindinu lauk.
Við viljum þakka Elías fyrir gríðarlega áhugavert erindi og fyrir að leggja sitt af mörkum inn í umræðuna. Það verður spennandi að fylgjast með framgangi Fisherman á komandi misserum og hvernig fyrirtækinu mun ganga á alþjóðlegum vettvangi.
Myndupptaka af erindinu er hér
Glærur sem Elías notaði í erindi sínu eru hér
Fiskifréttir fjöllu um málið sjá hér
Þeir sem vilja fá tilkynningar um erindin, s.s. áminningar og samantektir geta sent tölvupóst á hrafn@setur.is og verður viðkomandi þá bætt á póstlista með þessu efni.
Næsta erindi er fyrirhugað í júní og verður það auglýst fljótlega