Þekkingarsetur Vestmannaeyja í sókn – Orkídea
Í ferð Orkídeu til Vestmannaeyja nýttum við tækifærið og heimsóttum þau Hörð Baldvinsson framkvæmdastjóra og Evgeníu Mikaelsdóttur verkefnastjóra í Þekkingarsetri Vestmannaeyja (ÞSV). Þau tóku á móti okkar í nýuppgerðu húsnæði ÞSV að Ægisgötu 2 og sýndu okkur þetta glæsilega húsnæði m.a. nýja FabLab smiðju sem stýrt er af Frosta Gíslasyni. Starfsemi stofnana og fyrirtækja í húsnæði Þekkingarseturs Vestmannaeyja er fjölbreytt og tengist t.d. atvinnulífi, ferðamálum, menningarstarfsemi og menntun. Fjármögnun verkefna er yfirleitt í gegnum hina ýmsu samkeppnissjóði. Fyrirtæki og stofnanir í setrinu leggja jafnframt til vinnu eða mótframlag til verkefnanna. Hörður og Evgenía leggja áherslu á að velja verkefni ÞSV sem eru líkleg til árangurs fyrir samfélagið og sjá m.a. fyrir sér verkefni sem auka verðmæti sjávarafurða t.d. nýta betur ónýttar tegundir (s.s. rauðátu) og ónýttar hliðarafurðir í fiskvinnslu, enda er gott bakland í sjávarútvegsfyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Þekkingarsetrið hefur samning við SASS um atvinnuráðgjöf til fyrirtækja og frumkvöðla líkt og fleiri þekkingarfyrirtæki/-stofnanir á Suðurlandi.
Mjög fróðleg heimsókn og takk fyrir frábærar móttökur, Hörður og Evgenía!