„Það er mikil viðurkenning fyrir Þekkingarsetrið og Vestmannaeyjar í heild að fá 20 milljóna króna styrk til rauðátuverkefnisins frá Rannís og Tækniþróunarsjóði. Á vormisseri bárust sjóðnum 422 umsóknir og ákvað stjórnin að ganga til samninga um 84 verkefni á árinu fyrir ríflega 1.4 milljarða króna. Glæsilegt að vera í þeim pakka. Stuðningur sjóðsins til verkefnanna getur verið frá einu ári til allt að þriggja ára. Árangurshlutfall styrktra verkefna af heildarfjölda umsókna er 20%,“ sagði Hörður Baldvinsson, framkvæmastjóri Þekkingarsetursins.
Þekkingarsetrið hefur unnið að rauðáttuverkefninu nú í þrjú ár og er í samstarfi við norskt fyrirtæki sem hefur áralanga reynslu í veiðum og vinnslu á rauðátu. „Rauðátan er við bæjardyr Vestmannaeyja yfir hásumarið. Í síðustu viku fórum við á einum rannskóknarbátnum og gerðum tilraun með fimm háfa á mismunandi dýpi. Lítið kom í efstu tvo en meira fékkst af rauðátu í þá tvo næstu. Enginn meðafli þannig að veiðar á rauðátu ættu ekki hafa áhrif á lífríkið í sjónum og við erum að tala um mest 5000 tonn af einhverjum milljónum tonna við Suðurströndina.“
Hörður er í hálf pínlegri stöðu, peningar og veiðarfæri til reiðu en skip vantar. „Troll og hlerar sem við fengum frá samstarfsaðilum í Noregi hafa staðið á bryggjunni í einhverjar vikur. Vandinn er að við höfum ekki fengið skip og nú erum við að renna út á tíma þetta sumarið. Ég hef kynnt málið vel hér heima í Eyjum en ekki haft erindi sem erfiði í ár.“
Hörður segist finna víða fyrir áhuga en spurningin sé hver stigi fyrsta skrefið. „Minn draumur er að þetta verði alfarið í höndum Eyjamanna. Veiðar verða ekki stóra málið, hér er nóg af skipum sem henta til veiðanna. Það sem skiptir máli er vinnslan í landi sem í framtíðinni gæti orðið ein af stoðum í atvinnulífi Eyjanna.“ Sagði Hörður.
https://eyjafrettir.is/2023/06/19/raudatuverkefnid-fekk-20-milljona-styrk/