Í janúar 2010 tók Þekkingarsetur Vestmannaeyja yfir rekstur Fiska- og náttúrugripasafns Vestmannaeyja. Safnið var stofnað árið 1964 og hefur Vestmannaeyjabær rekið safnið síðan þá. Safnið er ennþá eign bæjarins þó svo að Þekkingarsetrið sjái um rekstur þess.
Við þessi tímamót var nafni safnsins breytt í Sæheimar-Aquarium. En safnastarf bæjarins og starfsemi því tengd mun í framtíðinni verða þrískipt þ.e. Eldheimar, Sagnheimar og Sæheimar. Innan Eldheima verður safn um sögu Heimaeyjargossins og verkefnið Pompei norðursins, sem er uppgröftur gosminja. Í Sagnheimum verða, Bóka- Byggða- og Skjalasafn. En innan Sæheima verður starfsemi Fiska- og náttúrugripasafnsins auk sjávarrannsóknamiðstöðvar sem einnig er rekin af Þekkingarsetrinu.
Breytingar á starfsemi safnsins hafa verið nokkrar við breytt rekstrarfyrirkomulag. Vetraropnunartíma safnsins hefur verið breytt, en nú er opið kl. 13-16 á laugardögum. Einnig hefur verið bætt við stórum 52 tommu sjónvarpsskjá í sýningarrýmið auk fimm smærri digital myndarömmum fyrir ljósmyndir. Auk þess hefur verið opnuð heimasíða fyrir safnið www.saeheimar.is , en þar eru ýmsar fréttir frá safninu og fróðleikur ýmis konar. Í tengslum við heimasíðuna er unnið að gerð fræðsluefnis fyrir börn á grunnskólaaldri.
Stefnt er að því að flytja safnið í nýtt og mun stærra húsnæði og hefur Vestmannaeyjabær fjárfest í húsnæði fyrir safnið. Þar mun megináherslan verða lögð á sýningu á lifandi fiskum og öðrum sjávarlífverum. Stefnt er að því að vera með stóran tank þar sem að allar helstu tegundir umhverfis Vestmannaeyja geta þrifist. Einnig er stefnt að því að vera áfram með minni og sértækari tanka og auðvitað aðstöðu til að halda lifandi fugla. Þá er verið að hugsa um n.k. athvarf fyrir fugla sem hafa lent í olíu eða grút, litlar lundapysjur og fugla sem af einhverjum ástæðum er ekki hægt að sleppa strax út í náttúruna. Möguleikar okkar til að reisa spennandi safn fyrir bæði áhugasama ferðamenn og fróðleiksfúsa heimamenn eru miklir. Hver man ekki eftir selnum Golla sem var hjá okkur í vetur og naut gestrisni starfsmanna Sæheima þrátt fyrir takmarkaða aðstöðu fyrir hann. Ný aðstaða þar sem að fuglar og hugsanlega smærri sjávarspendýr gætu verið til sýnis gæfu safninu nýja og spennandi ásjón. Tankur fyrir sjávarspendýr er klárlega eitthvað sem þarf að skoða hvort að sé kostur við hönnun á nýju safni.