Fundurinn var vel sóttur.
„Aðsókn fór langt fram úr mínum björtustu vonum og gott fyrir okkur að fá þetta tækifæri til að kynnast þeim möguleikum sem eru í boði hjá Rannís,“ sagði Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja sem stóð fyrir fundinum sem haldinn var í gær.
Um var að ræða kynningarfund þar sem Arnþór Ævarsson, Davíð Þór Lúðvíksson og Sigurður Snæbjörnsson, sérfræðingar á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís voru til viðtals og kynntu annars vegar styrktarflokka Tækniþróunarsjóðs og hins vegar skattafrádrátt vegna rannsókna- og þróunarverkefna.
„Rannís opnar fyrirtækjum og einstaklingum möguleika með styrkjum til rannsóknar- og þróunarverkefna. Var þeim gerð góð skil á fundinum og einnig skattafrádrætti sem fyrirtækjum stendur til boða. Er það sannfæring mín að við eigum eftir að sjá árangur af fundinum því Eyjamenn eru í eðli sínu frumkvöðlar og hugsa til framtíðar. Gott dæmi um það er Laxey sem við sjáum dafna og þróast með hverjum deginum,“ sagði Hörður.