Geta nýst til leitar á uppsjávarfiski – Möguleikar að leita undir
„Það var árið 2022 sem Bretarnir höfðu samband við okkur, voru að leita að öflugum samstarfsaðila á Íslandi til að setja saman tvo fjarstýrða kafbáta sem áttu að sigla fyrir eigin vélarafli til Skotlands, 2500 km leið og taka ýmiskonar sýni og gera margskonar prófanir á leiðinni,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Er hann nýkominn af verkefnafundi hjá National Oceanography Centre, Bresku hafræðistofnunni (NOC) sem er með aðalstöðvar sínar í Southampton. Áhugaverð tilraun hér í Eyjum í sumar sem tókst jafnvel betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Á meðan verkefninu stóð var fylgst daglega með bátunum í gegnum gervihnött Næsta skref í verkefninu er að kanna hvort nýta megi kafbáta af þessu tagi enn frekar, t.d. í leit að uppsjávarfiski, síld, loðnu og makríl.
Hörður segir að Bretarnir hafi verið í sambandi við fleiri á Íslandi en niðurstaða þeirra var að velja Vestmannaeyjar. „Þeim leist vel á Þekkingarsetrið og Vestmannaeyjar, öflugt bæjarfélag með mjög hæfu tæknifólki sem gæti gripið inn í ef eitthvað þyrfti að lagfæra eða smíða. Við vorum i samskiptum í eitt ár og í janúar á þessu ári komu tveir erlendir sérfræðingar,þeir Ed Chaney og Peter Lambert frá NOC og kynntu sér aðstæður og héldu fyrirlestra fyrir áhugasama Eyjamenn sem milli 20 og 30 sátu. Þeim leist vel á og margt áhugavert kom fram í fyrirlestrum þeirra um þá tækni sem ætlunin væri að nýta.“
Hópurinn frá NOC sem kom til í Eyja í sumar vegna kafbátaverkefnisins með Herði. Aftari röð f.v. Peter Lambert, Allison Schaap, Rachel Marlow, Ed Chaney og Hörður Baldvinsson. Fyrir framan Sam Smith og Rob Templeton.
Fór 2500 km á einni hleðslu
Hörður segir að í spjalli þeirra á milli hafi kviknað hugmynd, hvort ekki mætti nota kafbátana við fiskleit, einkum á uppsjávarfiski, loðnu, síld eða makríl. „Næsta skref var að kanna hvort mögulegt væri að koma bergmálsmæli fyrir um borð í bátunum ásamt öflugum fjarskipta búnaði sem myndi nýtast við leitina. Ferð bátsins sem í sumar sigldi frá Eyjum til Harryseyjar á Skotlandi sýndi og sannaði að þetta er hægt. Hann sigldi þessa 2500 km á einni hleðslu.“
Bátunum fylgdi hópur tæknifólks og áfram var rætt um til hvers mætti nýta kafbátana. „Það endaði með stórum verkefnafundi í Southampton um miðjan október sem mér var boðið á. Þar var farið yfir ýmis tæknimál og hugmynd okkar um að nýta bátana til fiskleitar. Það væri til dæmis tiltölulega auðvelt að leita að loðnu undir ísnum norður af landinu og við Grænland ef svo bæri undir. Um borð yrði bergmálsmælir og eDNA búnaður sem mælir ef loðna hefur verið á svæðinu og með gervigreind er hægt að stýra bátnum í átt að torfu sé hún fyrir hendi,“ segir Hörður og yrði þá mikil og góð viðbót við hefðbundna leit.
Markviss leit
Að verkefninu koma, NOC, Hafró, Matís og Þekkingarsetrið. „Ætlunin er að fá kafbát til Vestmannaeyja þar sem búnaðurinn verður settur um borð. Hann yrði síðan fluttur á Ísafjörð og siglt þaðan á helstu svæði loðnunnar og undir ísinn. Þetta gæti sparað stórfé og gert leitina mun markvissari. Hann gæti leitað samhliða rannsóknarskipunum eða einn og sér. Þegar minnka fer á rafhlöðunni snýr hann til baka inn á Ísafjörð.“
Róm var ekki byggð á einum degi og segir Hörður að það sama eigi við þetta verkefni. „Þetta er hátæknibúnaður en þróunin hefur verið mjög hröð undanfarin ári. Kanadamenn og Norðmenn hafa hannað búnað til fiskleitar en hugmynd okkar hefur það umfram aðra að geta leitað undir ís. Í raun gert það sem við viljum en allt þarf þetta sinn tíma,“ segir Hörður og næsta skref er að sækja um styrki, erlenda sem innlenda.
Fyrstu prófanir á búnaðinum verða gerðar á tilraunastofum NOC í Southampton sem er leiðandi á sviði sjávarrannsókna.
Miklir hagsmunir
Það ætti ekki að vera vandamálið því hagsmunir eru miklir. „Fyrstu prófanir á búnaðinum verða gerðar á tilraunastofum NOC í Southampton sem er leiðandi á sviði sjávarrannsókna. Það er alls konar tæknmál sem þarf að leysa til að auka markvissar rannsóknir. Það er ekki verið að finna upp hjólið en margir þurfa að koma að borðinu. Þetta hef ég kynnt Hafró og öðrum sem geta nýtt sér þennan möguleika. Það eru miklir hagsmunir í húfi, loðna, makríll og síld eru stofnar sem skipta okkur Íslendinga miklu. Verðmætið skiptir tugum milljarða þegar vel gengur. Hér er boðið upp á markvissari leið og ódýrari til að leita uppi torfur og fylgjast með göngu þeirra.“
NOC er stór stofnun, með um 650 starfsmenn og hefur komið að mörgum áhugaverðum verkefnum. „Hafró gegnir líka mikilvægu hlutverki því þar er okkar helstu sérfræðingar í rannsóknum á loðnu með okkur í liði. Fundaði ég með þeim síðari hluta október og er þeir mjög áhugasamir.
Hlakkar til að koma aftur
„Vestmannaeyjar reyndust rétti staðurinn fyrir kafbátaverkefnið okkar. Á leið kafbátsins frá landgrunni við Ísland að ströndum Skotlands náðum við að mæla magn kolefnis og annarra efna í hafinu,“ segir Robert Templeton frá NOC sem er ánægður með samstarfið við Þekkingarsetrið. „Öll þjónusta sem við þurftum á að halda var til staðar. Jákvætt viðmót fólks sem leysti allt fljótt og vel af hendi. Oft við erfiðar aðstæður og stundum var hvasst. Ekki skemmdi stórkostleg náttúra Vestmannaeyja. Allt umhverfið, villt náttúran, fuglarnir og lífið í sjónum. Að ógleymdum matsölustöðum í fremstu röð. Við hlökkum til að koma aftur og vinna með Þekkingarsetri Vestmannaeyja í framtíðinni.“