Erindi – 27. febrúar 2020
Á sjötta tug gesta á hádegiserindi í Þekkingarsetrinu Hvað er að gerast með loðnuna? Staða og horfur í uppsjávarstofnum.
Í dag, fimmtudaginn 27. febrúar hélt Guðmundur Óskarsson sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknarstofnunar gríðarlega áhugavert erindi sem bar yfirskriftina Staða og horfur með stofnstærð og veiðar á uppsjávarfiski. Á sjötta tug manns mætti til að hlýða á erindið. Sjómenn á uppsjávarskipum í Eyjum fjölmenntu á erindið og sýndu því mikinn áhuga. Gestir voru sem fyrr hvatir til að spyrja spurninga og nýttu gestir erindisins sér það vel, enda er eitt af markmiðunum með erindunum að spyrja spurninga og fá svör við þeim.
Það eru miklir óvissutímar framundan varðandi veiðar á loðnu á þessu ári. Útlitið er hreint ekki bjart, en það er ekki öll von úti enn. Leikurinn hefur ekki verið flautaður af. Það er mikil umræða og áhugi á loðnunni í Eyjum enda mikið í húfi og mikil spenna í loftinu. Ástand uppsjávarstofnanna við Ísland er mjög misjafn, það má segja að það sé nokkuð öfgakennt upp og niður. Öfgakenndar sveiflur eru ekki nýjar af nálinni fyrir hagsmunaðilum í uppsjávariðnaði.
Í erindi sínu fjallaði Guðmundur um stærð stofna og afla í helstu nytjastofnum við Ísland: loðnu, makríl, kolmunna, norsk-íslenskri vorgotssíld og íslenskri sumargotssíld. Guðmundur fjallaði með ítarlegum hætti um hverja og eina tegund og setti upplýsingar um hvern og einn fiskistofn fram með skýrum hætti í góðri samantekt. Nokkuð af nýjum upplýsingum komu fram í erindi Guðmundar.
Flestar spurningarnar snerust um loðnuna. Guðmundur fór yfir nýjustu mælingar sem farið hafa fram á loðnunni. Enn er unnið að úrvinnslu gagna frá leitarskipum. Fram eru komin gögn sem gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni á loðnuvertíð á þessu ári. Ljóst er að það þarf aukna fjármuni til að stunda frekari mælingar og vöktun á loðnunni, það er verkefni útgerðar og opinberra aðila á næstu dögum. Tíminn vinnur ekki með hagsmunaðilum í þessum málum, enda drepst stór hluti veiðistofns loðnu við hrygningu í lok mars.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja þakkar Guðmundi fyrir að hafa gefið sér tíma til að koma til Eyja og deila þekkingu sinni og upplýsingum Hafró með sjávarútvegsaðilum í Eyjum. Það mæðir mikið á starfsfólki Hafró þessa dagana við loðnuleit, mælingar og útreikninga og því fengur að fá nýjar og ferskar upplýsingar um stöðu mála í loðnu sem og stöðu og horfur í öðrum uppsjávarstofnum.
Erindið er hluti af mánaðarlegum erindum um sjávarútvegsmál sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur fyrir aðila í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum og þetta erindi hið átjánda í röðinni frá upphafi. Hægt er að sjá öll erindin hér