Það er ánægjulegt að segja frá því að tvö verk sem hafa verið undir verkefnastjórn ÞSV hafa fengið hinar virtu FÍT viðurkenningar. FÍT er félag Íslenskra teiknar sem var stofnað árið 1953.
Líkt og segir á heimasíðu félagsins þá snýst keppnin um ,,það besta í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi“. Verkin sem hljóta viðurkenningar eru síðan sýnd á veglegri sýningu sem haldin hefur verið í tengslum við Hönnunar Mars.
Verkin sem Þekkingarsetrið kom að voru bæði undir verkstjórn Raquel Díaz, verkefnastjóra markaðs- og ferðamála. Annarsvegar var um að ræða hönnun á firmamerki SASS og kynningarefni samtakanna en viðurkenninguna fékk Þrúður Óskarsdóttir hönnuður, þess má geta að Þrúður hannaði jafnframt nýtt firmamerki Þekkingarseturs Vestmannaeyja og gluggamerkingar í nýju húsnæði Þekkingarsetursins að Ægisgötu 2. Hinsvegar var það hönnun á Ey – veftímariti sem unnið var af auglýsingastofunni Brandenburg. Ey – veftímaritið er hluti af „City Branding“ átaki á vegum Vestmannaeyjabæjar.
Við óskum Þrúði og Brandenburg til hamingju með þennan frábæra árangur.