Erindi – 22. október 2019
Jónas Rúnar Viðarsson, fagstjóri hjá Matís. Hvert stefnir sjávarútvegur á heimsvísu? – þróun og væntingar.
Þriðjudaginn 22. október 2019 hélt Jónas Rúnar Viðarsson, fagstjóri hjá Matís, mjög fróðlegt erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Á fimmta tug áhugasamra aðila mætti í Setrið til að hlýða á Jónas.
Erindið er hluti af mánaðarlegum erindum um sjávarútvegsmál sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur fyrir aðila í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum og er erindið nú hið 15 í röðinni frá upphafi.
Erindi Jónasar bar yfirskriftina: Hvert stefnir sjávarútvegur á heimsvísu? – þróun og væntingar.
Jónas byrjaði á að fara stuttlega yfir starfsemi Matís og hvaða áskoranir Matís stendur frammi fyrir. Starfsstöðvum á landsbyggðinni hefur fækkað mikið sem og starfsmönnum.
Farið var yfir stóru myndina í sjávarútveginum á heimsvísu, hvaða straumar og stefnur eru í gangi. Jónas kom við í mörgum löndum í erindi sínu m.a. Noregi, Færeyjum, Íslandi, Rússlandi, auk þess að fjalla um Evrópusambandið. Sjávarútvegur og fiskeldi blandaðist inn í alla umræðu.
Farið var yfir mikilvægi fæðuöryggis, umhverfismál, brottkast, matarheilindi, sjálfbærni og fjölmargt annað áhugavert.
Fjölmargar spurningar komu úr sal og góðar umræður sköpuðust í kringum þær.
Starfsmenn Matís hafa verið í Eyjum s.l. daga til að eiga samtal við sjávarútveginn í Eyjum og aðra haghafa varðandi nýráðningu á starfsmanni á starfsstöð í Eyjum.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja þakkar Jónasi og öðrum starfsmönnum Matís fyrir að heimsækja sjávarútveginn í Eyjum og deila þekkingu sinni, m.a. með erindinu í Þekkingarsetrinu.
Næsta erindi er fyrirhugað í nóvember
Hér er hægt að nálgast fjölmiðlaumfjöllun um erindið: Fiskifréttir – 7. Nóvember 2019
Ein athugasemd