Alls komu fjórir kolkrabbar á fiskasafnið í síðustu viku og er einn kolkrabbanna, að sögn Kristjáns Egilssonar, fyrrverandi safnstjóra, sá stærsti sem komið hefur á safnið hingað til. Það voru skipsverjar á togaranum Jóni Vídalín Ve sem komu með kolkrabbann á safnið og að því tilefni hefur kolkrabbinn fengið nafnið Vídalín.
Yfirleitt eru kolkrabbar mjög fælnir og fela sig helst fyrir safngestum, það á reyndar ekki við um Vídalín því hann á sér ágætan stein til að hvíla á fyrir miðjum tanki. Hinir þrír kolkrabbarnir eru ekki eins öruggir með sig og fela sig helst í gjótum og bak við steina í búrum sínum.
Vídalín er af tegund sem er nokkuð algeng hér við land en hún heitir vörtusmokkur eða Eledone cirrhosa á latnesku. Útbreiðslusvæðið er einkum í hlýsjónum suður og suðvestur af landinu meðfram vesturströnd Noregs og inn í Miðjarðarhafið og að ströndum Marokko. Hún lifir á 25 til 400 metra dýpi en heldur sig gjarnan á yfir 100 m dýpi. Að sögn, Haraldar, skipstjóra á Jóni Vídalín Ve, kom Vídalín í trollið á um 130 metra dýpi út af Reykjanesstánni og á nokkuð hörðum botni, en vörtusmokkar velja sér helst mjúkan botn sem búsvæði.
Kolkrabbar eru taldir gáfuðustu hryggleysingjarnir í sjónum. Þeir hafa nokkuð þróað taugakerfi og í allt þrjá heila. Í söfnum erlendis hafa menn notað legokubba til örva þá og halda þeim ánægðum. Þeir eru fljótir að læra og hafa bæði gott skammtímaminni og einnig langtímaminni. Þeir geta t.d. lært að skrúfa lok af krukku sem inniheldur fæðu.
Vídalín verður til sýnis í Sæheimum, fiskasafninu að Heiðarvegi, á sunnudaginn milli kl. 15:00 og 17:00. Einnig er hægt að sjá fleiri myndir af Vídalín í myndasafni okkar.