Viska fagnar tíu ára starfsafmæli í janúar 2013 og efnir til kynningar laugardaginn 6. október kl. 16-17 í Einarsstofu Safnahúss.
Arnar Sigurmundsson kynnir afmælisverkefni Visku sem hann ásamt Þórunni Jónsdóttur mun stýra. Námskeiðið ber heitið Húsin í hrauninu en brátt eru 40 ár liðin frá upphafi og lokum eldgossins í Heimaey 1973. Námskeiðið er sjálfstætt framhald af námskeiðunum um Húsin í götunni.
Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og samanstendur af vikulegum vinnufundum á þriðjudögum kl. 19:30-22:00 í Viskusalnum að Strandvegi 50. Fyrsti fundur er þriðjudaginn 9. október.
Í tilefni af kynningunni eru í Einarsstofu dregin fram málverk af húsum og umhverfi sem fór undir hraun. Jafnframt er þess farið á leit að þeir sem eiga málverk af húsum eða svæðum nú orpin hrauni hafi samband við starfsmenn Safnahúss vegna skráningar slíkra málverka.
Allir hjartanlega velkomnir.