Mjaldrasysturnar Litla-Grá og Litla-Hvít komu til Vestmannaeyja í gærkvöldi eftir langt og strangt 19 klukkustunda ferðalag frá sædýragarðinum Changfeng Ocean World í Sjanghæ í Kína. Flugið tók tæpa ellefu klukkustundir og lenti vélin í Keflavík rétt fyrir klukkan tvö. Þar tók við tollafgreiðsla auk þess sem fulltrúar MAST skoðuðu mjaldrana og gáfu út formlegt leyfi fyrir flutningnum. Einnig var skipt um vatn að hluta í búrum systranna áður en lagt var af stað eftir Suðurstrandaveginum um klukkan sex síðdegis en rétt fyrir klukkan tíu keyrðu bílarnir með systurnar inní Herjólf.
Herjólfur kom síðan í land með mjaldrana innanborðs rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi en við tók nokkurra klukkustunda vinna við að koma þeim í sérútbúna laug þar sem þær munu aðlagast næstu vikurnar áður en þær verða fluttar í griðarsvæði í Klettsvík sem er það fyrsta í heiminum sem er sérhannað fyrir mjaldra
Litla-Grá og Litla-Hvít ferðuðust í sitt hvorum tanknum þar sem fór vel um þær og voru þær undir ströngu eftirliti alla ferðina. Systurnar voru farnar að sýna þreytumerki við komuna til Vestmannaeyja, en fljótlega efitr komuna í laugina fóru þær að hreyfa sig og éta.
Mjaldrasysturnar eru nú í einangrun í sérsmíðaðri laug þar sem þær munu dvelja allavega í 40 daga. Þegar aðlögun þeirra er lokið verða þær fluttar á griðastað sinn í Klettsvík.
Bjóðum við þær hjartanalega velkomnar heim.