Vestmannaeyjar voru í júní miðstöð umfangsmikilla rannsókna í hafinu suður af Eyjum. Notaðir eru tveir fjarstýrðir kafbátar hlaðnir hátæknibúnaði sem taka margskonar sýni úr sjónum og greina þau um leið. Héðan héldu þeir 16. júní til móts við breskt rannsóknaskip þaðan sem þeir lögðu upp í leiðangur suður eftir Atlantshafinu. Leiðangrinum lýkur á Harriseyju í Skotlandi og þá hafa bátarnir lagt 3000 km að baki á einni og sömu rafhlöðunni. Ferð bátanna gengur vel og eru þeir komnir vel áleiðis eins og myndin sýnir
„Þetta hefur verið í deiglunni í tvö ár en upphafið var að Breska hafrannsóknarstofnunin hafið samband við Háskóla Íslands sem vísaði á Vestmannaeyjar. Bretarnir töluðu svo við okkur,“ sagði Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja. „Ég sagði að Vestmannaeyjar væru langsbesti staðurinn, öflugt bæjarfélag við andyri alls Norður Atlantshafsins. Mikil tækniþekking og reynsla til staðar og á hverju strái eldklárir rafvirkjar og tæknimenn. Alltaf til þjónustu reiðubúnir komi eitthvað upp á. Ég sendi þeim skýrslu og síðasta haust komu Ed Chaney og Peter Lambert frá Bretlandi og leist vel á. Bátarnir eru komnir og farnir og þeim fylgdu fimm vísindamenn til að setja bátana saman og sjá um að allt væri í lagi.“