Metþátttaka var miðvikudaginn 24. mars á hádegiserindi um sjávarútvegsmál í Þekkingarsetrinu. 70 manns tóku þátt þegar Helgi Hjálmarsson, stofnanda og framkvæmdastjóra Völku hélt erindi sem bar yfirskriftina: Hvernig lítur nútíma fiskvinnsla út og hvernig gæti fiskvinnsla framtíðarinnar litið út?
Frá upphafi árs 2018 hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg. Erindi Helga var hið 23 í röðinni. Fyrri erindi er hægt að sjá á heimsíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja hér. Erindin hafa bæði farið fram í Þekkingarsetrinu sem og á Zoom. Erindin á Zoom hafa verið öllum opin. Erindin eru mjög fjölbreytt og eiga erindi við fjölbreyttan hóp fólks sem starfar í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Með þessu erindi vildum við leggja okkar að mörkum til að færa umræðu frammávið varðandi aukna vinnslu á sjávarafurðum sem og að efla umræðu um mikilvægi sjávartengds iðnaðar. Markmiðið með þessum erindum okkar er að hrista fólk í sjávarútvegi saman og draga fram áhugaverða hluti sem tengjast sjávarútvegi, þannig að fólk taki eitthvað nýtt með sér af erindunum. Í senn er þetta umræðu-, félags- og fræðsluvettvangur.
Valka hefur verið að koma fram með mjög áhugaverðar lausnir fyrir fiskiðnað á síðustu árum og sérstaklega hefur verið gaman að sjá gott gengi félagsins koma fram í stöðugum hröðum vexti og auknu umfangi bæði á Íslandi og í útlöndum.
Helgi kom víða við í erindi sínu þar sem hann fór m.a. yfir grunnuppbyggingu Völku og áherslur fyrirtækisins í nýsköpun. En fyrirtækið byggir alla sína starfsemi á nýsköpun. Fyrirtækið er í miklu og góðu samstarfi við fjölmarga aðila s.s. háskóla, rannsóknarstofnanir og ekki síst atvinnulífið. Helgi leiddi áhorfendur í gegnum nýja og glæsilega fiskvinnslu Samherja á Akureyri sem er útbúin öllu því nýjasta sem nútíma fiskvinnslu stendur til boða. Hann útskýrði með ýtarlegum hætti þann búnað sem í vinnslu er, eiginleika og afköst. Helgi ræddi um kosti og galla þess að reka fyrirtæki eins og Völku á Íslandi og kom inn á hlutverk stjórnvalda til eflingu á sjávartengdum iðnaði. Einnig fór hann yfir þær breytingar sem COVID-19 hefur haft á starfsemi fyrirtækisins. Helgir ræddi einnig um mikilvægi þess að hafa aðgengi að hæfu og vel menntuðu starfsfólki til að styðja við framtíðarvöxt fyrirtækisins. Í lokin svaraði Helgi nokkrum spurningum.
Myndupptaka af erindinu er hér
Glærur sem Helgi notaði í erindi sínu eru hér
Myndband frá Samherja er hér
Myndaband frá Völku er hér
Fiskifréttur fjölluðu um erindið – sjá hér
Við viljum þakka Helga fyrir áhugavert erindi og fyrir að leggja sitt af mörkum inn í umræðuna.
Þeir sem vilja fá tilkynningar um erindin, s.s. áminningar og samantektir geta sent tölvupóst á hrafn@setur.is og verður viðkomandi þá bætt á póstlista með þessu efni.
Næsta erindi er fyrirhugað í apríl og verður það auglýst fljótlega