Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ávarpaði ársfund Samtaka þekkingarsetra sem fram fór í liðinni viku. Samtökin eru netverk þekkingarsetra á landsbyggðinni sem starfa m.a. að rannsóknum og þróun til eflingar byggða, þjónustu við háskólanema og eflingu nýsköpunar, atvinnu og samfélagsþróunar.
Í ávarpi sínu fjallaði Áslaug Arna um þingsályktunartillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi sem byggir á framtíðarsýn um að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Þetta felur í sér sjálfbæra þróun atvinnulífs og samfélags með þekkingu og hugvit að leiðarljósi. Í því felast gríðarleg tækifæri fyrir landsbyggðina.
,,Þekkingarsetrin gegna mikilvægu þjóðfélagshlutverki í dag og styðja við samfélagið með fjölbreyttum hætti. Meðal annars við háskólanemendur, t.d. við próftöku og í að veita námsaðstöðu sen tryggir jafnari tækifæri til náms hvar sem er á landinu,” sagði ráðherra á sama tíma og auka þurfi aðgang að fjarnámi. ,,Ég vil sjá þekkingarsetrin gegna enn stærra hlutverki í framtíðinni enda hafa þau öll sterk tengsl við nær samfélög sín og það er mikill fjöldi tækifæra sem nýta má enn betur. Ég hlakka til að ráðast í stefnumótun um framtíðartækifæri setranna og hvernig þau geta verið seglar fyrir samfélög víða um land.”
Um þessar mundir vinnur spretthópur innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins að því að skilgreina hlutverk bæði þekkingarsetra og Fablab smiðja um land allt og endurskoða alla samninga við slíka aðila. Heildstæð nálgun ráðuneytisins að þekkingarsetrunum byggir á framlagi þeirra til að ná fram markmiðum sem snerta háskólamenntun, rannsóknastarfsemi og nýsköpun. Því er stefnt að því að í framtíðinni verði samningar ekki með óbreyttu sniði heldur taki þeir skýrara mið af áherslum ráðuneytisins. Auk þess eru tækifæri til að tengja málefni þekkingarsetra víðar, t.a.m. við símenntunarmiðstöðvar um landið allt og breikka þekkingarnet á Íslandi þannig enn frekar.
Stjórnarráðið | Mikil tækifæri í þekkingarsetrum (stjornarradid.is)