Góðgerðasamtökin SEA LIFE Trust segja í tilkynningu sem send var út rétt í þessu að mjaldrarnir, Litla Hvít og Litla Grá eru nú á lokastigum í undirbúningi fyrir flutning í varanleg heimkynni sín í Klettsvík. Griðarstaðurinn í Klettsvík sem er sá fyrsti sinnar tegundar var byggður fyrir rausnarlegt framlag Merlin Entertainments.
Heilsa og velferð hvalanna hefur verið undir ströngu eftirliti sérfræðinga og dýralækna síðastliðið ár, eftir ótrúlegt 10.000 kílómetra ferðalag þeirra á lofti, láði og legi frá sædýrasafni í Kína til Íslands.
Frá komunni til Íslands hefur verið unnið að aðlögun og undirbúningi fyrir flutning þeirra út í sitt náttúrulega umhverfi. Það hefur falið í sér að undirbúa hvalina fyrir íslenskt veður og sjólag auk þess að venja þá við gróður og dýralíf sem bíður þeirra í nýjum heimkynnum. Einnig hefur staðið yfir undirbúningur fyrir flutninginn sjálfan og þann búnað sem nýttur verður til verksins.
Audrey Padgett, Framkvæmdastjóri SEA LIFE Trust, Vestmannaeyjum: „Litla Grá og Litla Hvít hafa náð undraverðum árangri frá því þær komu til okkar á síðasta ári. Við getum sagt með bros á vör að þær eru nú tilbúnar að flytja í sitt náttúrulega umhverfi í nýjum heimkynnum.
Fremstu sérfræðingar heims hafa unnið að þessu með okkur og hefur velferð hvalanna alltaf verið höfð að leiðarljósi. Þar sem íslensk stjórnvöld munu draga úr takmörkunum vegna COVID-19 faraldursins á næstu vikum sjáum við ekkert því til fyrirstöðu að gera það sem er Litlu Grá og Litlu Hvít fyrir bestu og færa þær í ný heimkynni sín.
Við höldum að sjálfsögðu áfram að fylgjast vel með heilsu og velferð dýranna. En einnig öðrum þáttum sem haft geta áhrif á flutningana.“
Flutningurinn frá hvalalauginni á Heimaey út í kvínna í Klettsvík, sem nær yfir 32.000 fermetra svæði sem er allt að tíu metra djúpt, markar endann á ótrúlegu ferðalagi hvalanna aftur út í sjó. Þessu ferðalagi verður gerð ítarleg skil í heimildarmynd sem sýnd verður á bresku sjónvarpsstöðinni ITV seinna á árinu.
SEA LIFE TRUST Griðarstaður mjaldra er eitt stærsta verkefnið á heimsvísu þegar kemur að umönnun og vernd fangaðra hvala og höfrunga og það fyrsta sinnar tegundar stofnað sérstaklega í þeim tilgangi. Verkefnið er unnið í samvinnu við alþjóðlegu verndarsamtökin Whale and Dolphin Conservation (WDC)
Fyrir frekari upplýsingar um SEA LIFE TRUST Beluga Whale Sanctuary eða ef þú vilt leggja málefninu lið endilega heimsækið www.sealifetrust.org.