Erindi – 12. febrúar 2019
Róbert Guðfinnsson – Nýsköpun, markaðssetning og framtíðin
Þriðjudaginn 12. febrúar var Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson með gríðarlega áhugavert erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Mikill áhugi var fyrir erindi Róberts, enda mættu á fimmta tug í Setrið til að hlýða á erindið. Yfirskrift erindisins var Nýsköpun, markaðssetning og framtíðin.
Erindi sínu skipti Róbert í 3 hluta: vörumerki, líftækni og fiskeldi. Meðan á erindinu stóð svaraði hann spurningum úr sal.
Róbert tók dæmi um vel heppnaðar aðgerðir í markaðssetningu í heiminum og tengdi það við íslenskan sjávarútveg. Einnig fjallaði hann um áhugaverða nálgun sem fyrirtæki á Íslandi hefur farið í markaðssetningu og vörumerkjastjórnun (e. branding) á sjávarafurðum og ný tækifæri sem eru að skapast með aukinni upplýsingamiðlun. Miklar breytingar eru að eiga sér stað í markaðssetningu sjávarafurða að mati Róberts.
Nýsköpun var rauði þráðurinn í erindinu og tengdi Róbert með skýrum hætti umhverfi nýsköpunarverkefna og fjármagn sem þarf til slíkrar starfsemi.
Róbert ræddi reynslu sína úr líftækni og hvaða innviðir þurfa að vera í samfélögum til að slík starfsemi geti þrifist og það hvernig hægt er að tengja vörur og þjónustu við sveitarfélög í markaðssetningu. Lífsgæði í samfélögum eru ofarlega í huga Róberts. Svo fyrirtæki geti blómstrað og vaxið, að mati Róberts, þarf góð lífsgæði fyrir íbúa. Róbert hefur lagt mikið upp úr þessu í sinni atvinnuuppbyggingu á Siglufirði.
Hann ræddi um nýja hluti sem eru að gerast í líftækni, m.a. nýjar afurðir sem geta mögulega komið í stað hefðbundins hráefnis í fiskeldi s.s. fiskimjöl og lýsi.
Að lokum setti Róbert fram spennandi hugmyndir um úthafsfiskeldi og hvatti Eyjamenn til að skoða möguleika á slíku eldi í kringum Vestmannaeyjar. Að hans mati geta Vestmanneyjar orðið þjónustumiðstöð fyrir slíka starfsemi.
Erindið er hluti af mánaðarlegum erindum um sjávarútveg sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur fyrir aðila í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum.
Þekkingarsetrið þakkar Róberti fyrir spennandi erindi.