Svo virðist sem lundapysjurnar séu að yfirgefa holurnar þessa dagana. Þær eru talsvert seinna á ferðinni en í meðalári en þær pysjur sem hafa verið vigtaðar og mældar á Fiskasafninu hafa verið í nokkuð góðu ástandi. Þær eru talsvert þyngri en pysjurnar sem voru að finnast í fyrra og ekki er mikið um dúnaðar pysjur. Ástandið virðist því vera skárra en það var í fyrra og skárra en óttast var. Lundinn hefur sést vera að bera síli í holurnar síðustu vikur og hugsanlega hefur það orðið til þess að þær pysjur sem enn voru á lífi hafi náð að braggast.
Ef heldur áfram sem horfir ætti næsta helgi að geta orðið mjög góð fyrir pysjusöfnun. Bæði hefur pysjunum verið að fjölga jafnt og þétt auk þess sem veðurspáin er góð. Við vonum að sem flestir komi með pysjurnar í vigtun og mælingu á Fiskasafnið en þannig fáum við upplýsingar um ástand þeirra.
Fiskasafnið er opið alla daga frá kl.11 til kl.17 og mun starfsmaður frá Setrinu vera við mælingar á pysjum kl.15-17 virka daga og kl.11-14 um helgar.