Erindi – 22. janúar 2020
Japönsk sjávarútvegsfyrirtæki með hádegiserindi í Þekkingarsetrinu
Í fyrradag, miðvikudaginn 22. janúar fór fram gríðarlega áhugavert erindi frá japönsku sjávarvarútvegsfyrirtækjunum Maruha Nichiro, Okada Suisan and Azuma foods. Frábær mæting var á viðburðinn. Fimmtíu manns mættu til að hlýða á fulltrúa japönsku fyrirtækjanna. Þrír aðilar, einn frá hverju fyrirtæki, fluttu erindi og svöruðu spurningum gesta í lokin.
Þeir sem fluttu erindin voru: Yohei Kitayama frá VSV Japan (Vinnslustöðin), fyrir hönd, Okada Suisan, Tamura Takahiro frá Azuma Foods International og Hiroshi Yamazaki frá Maruha Nichiro
Erindið og umræðuefnið
Erindið var hluti af mánaðarlegum erindum um sjávarútvegsmál sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur fyrir aðila í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum og er erindið hið sautjánda í röðinni frá upphafi. Hægt er að sjá öll erindin hér.
Umræðuefnin voru þrjú: 1) markaðir fyrir sjávarafurðir í Japan, 2) kaupendur sjávarafurða og 3) áhrif loðnubrests á japanska fiskframleiðendur.
Boðið var upp á fjölbreytt úrval af sushi frá veitingastaðnum Gott í Vestmannaeyjum, sem Sigurður Gíslason matreiðslumeistari framreiddi með glæsilegum hætti. Það var vel við hæfi að bjóða upp á þessa sterku japönsku matarhefð sem sushi er og blanda henni saman við fjölbreytt og fersk sjávarfang úr hafinu við Vestmannaeyjar.
Loðnuhrogn eru mikið notuð í framleiðslu á masago, sem svo aftur er mikið notað í framleiðslu á sushi réttum. Masago eru lituð loðnuhrogn sem unnin eru eftir kúnstarinnar reglum. Einn stærsti framleiðandi á loðnuhrognum í heiminum er fyrirtækið Marhólmar í Vestmannaeyjum. Fyrirtæki sem að stórum hluta er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Það masago sem notað var í sushið á erindinu kom allt frá Marhólmum og var það í öllum regnbogans litum.
Japönsku gestirnir höfðu tekið með sér fjölbreyttar afurðir í neytendapakkningum, sem seldar eru í verslunum í Japan, til að sýna gestum erindisins. Bæði var um að ræða loðnu og makríl, í ýmsum útgáfum. Útskýrt var hvernig vörurnar eru eldaðar, hvernig varanna er neytt, hverjir kaupa þær og hvað þær kosta. Vöktu þessar afurðir mikla athygli gesta, sem margir hverjir höfðu einungis séð loðnu á frumframleiðslustigum. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að það þurfti að flytja inn loðnu til Íslands frá Japan til að sýna íslenskum gestum erindisins, en sú var raunin þar sem engar birgðir eru til af loðnu á Íslandi.
Japönsku fyrirtækin
Maruha Nichiro er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims. Velta fyrirtækisins á árinu 2018 var 920 milljarðar japanskra yena (JPY) eða meira en billjón (1032 milljarðar) íslenskar krónur (ISK). Tekjur félagsins voru því meira en fjórfaldar heildarútflutningstekjur íslensks sjávarútvegs á því ári. Út frá öðrum samanburði, þá voru heildartekjur Maruha 22% hærri en heildartekjur íslenska ríkisins árið 2018. Því má með sanni segja að um risafyrirtæki sé að ræða. Fyrirtækið stundar m.a. fiskveiðar og fiskeldi. Maruha stundar einnig aðra framleiðslu s.s. á margskonar kjöti og lyfjaiðnaði. Fyrirtækið vinnur matvæli á ýmsum framleiðslustigum allt frá frumframleiðslu til fullunninna vara fyrir neytendamarkað.
Azuma food er stærsti framleiðandi á loðnuhrognum í heiminum. Okada Suisan er stærsti framleiðandi á unnum loðnuafurðum í Japan og þá jafnframt í heiminum. 50% af tekjum fyrirtækisins koma frá loðnuafurðum.
Öll japönsku fyrirtækin eru með starfsemi í fleiri en einu landi. Þau nota mikið af sjávarafurðum frá Íslandi s.s. loðnu, loðnuhrogn, makríl, síld, karfa, grálúðu o.fl. í sölu sinni og framleiðslu. Fisktegundir með hátt fituhlutfall eru vinsælar í Japan.
Loðna og loðnubrestur
Japönsku fyrirtækin þrjú eru stærstu kaupendur loðnuafurða í Japan. Ein meginástæðan fyrir komu Japanana til landsins var að kynna fyrir stjórnvöldum á Íslandi hver möguleg áhrif loðnubrest hefði á fyrirtæki og markaði í Asíu. Árið 2019 voru engar veiðar á loðnu heimilaðar við Íslandsstrendur og var þá talað um loðnubrest. Útlitið er ekki bjart varðandi loðnuvertíð árið 2020. Gríðarlegt áfall yrði þá á nýjan leik, eins og árið 2019, fyrir samfélög eins og t.d. Vestmannaeyjar, sem reiða sig mjög á loðnuveiðar og -vinnslu. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti vetrarloðnuvertíð að vera hafin við Ísland. Loðnuvertíð ætti þá að standa yfir frá janúar – mars.
Árlega eru flutt út um 23 – 25 þús. tonn af loðnuafurðum til Japans frá Íslandi, Noregi og Kanada til samans. Þar af er útflutningur frá Íslandi um 11 – 15 þús. tonn. Árið 2019 voru flutt út tæp 6 þús. tonn frá Íslandi, þrátt fyrir loðnubrest það ár. Seldar afurðir árið 2019 komu frá framleiðslu síðustu ára. Engar birgðir af loðnu eru nú til staðar á Íslandi og loðnubirgðir í Japan duga fram í júní 2020, skv. upplýsingum kaupenda. Því skiptir gríðarlegu máli fyrir japönsku fyrirtækin að fá loðnu frá Íslandi á þessu ári til að viðhalda mörkuðum með loðnuafurðir. Ísland og Noregur hafa verið helstu framleiðslulönd loðnuafurða. Veiðar Norðmanna á loðnu úr Barentshafi voru bannaðar á árinu 2019 og engar veiðar verða heldur leyfðar þar á árinu 2020. Lítilsháttar magn af loðnu er veitt í Kanada.
Japönsku fyrirtækin þurfa a.m.k. 10 þús. tonn af loðnuafurðum á árinu 2020 til að viðhalda mörkuðum svo ekki komi til framleiðslustöðvunar. Ef til framleiðslustöðvunar kemur þá gera japönsku fyrirtækin ráð fyrir að það muni hafa áhrif á störf 3000 starfsmanna í 20 framleiðsluverksmiðjum á þeirra vegum. Í versta falli mun loðnubrestur leiða til mikilla uppsagna fyrir stafsfólkið.
Útflutt magn af loðnuhrognum frá Íslandi minnkaði mjög mikið á árinu 2019 þegar 6500 tonn voru flutt út. Meðalútflutningur á árabilinu 2015 – 2018 var 11.500 tonn. Hrognaútflutningurinn minnkaði því um tæpan helming frá meðaltali fyrri ára.
Japönsk matarhefð hefur á stuttum tíma vaxið mjög um víða veröld. Frá aldamótunum síðustu hefur heimsframboð af loðnuafurðum minnkað til muna. Á sama tímabili hefur orðið sprenging í fjölgun veitingastaða á heimsvísu sem bjóða upp á japanska matarhefð s.s. sushi. Um aldamótin voru um 30 þús. veitingastaðir í heiminum sem buðu upp á japanska matarhefð en árið 2020 eru veitingastaðirnir orðnir um 150 þús. eða nærri því fimmföldun á þessum 20 árum. Þar af eru um 100 þús. veitingastaðir staðsettir í Asíu, 30 þús. veitingastaðir í Bandaríkjunum og 20 þús. veitingastaðir í Evrópu og Afríku. Vinsældir japanskrar matarhefðar hafa einnig vaxið á neytendavörumarkaði. Japönsk matvæli eru vinsæl í matvöruverslunum víða um veröld.
Ef loðnuveiðar verða ekki heimilaðar árið 2020 þá þurfa japanskir kaupendur sem um áratugaskeið hafa keypt loðnuhrogn í framleiðslu sína að skipta yfir í síldarhrogn úr Norðursjó. Hrognin þaðan hafa þeir keypt frá Danmörku, Þýskalandi, Noregi, Hjaltlandseyjum (Shetland Islands) og Skotlandi. Í ágúst og september 2019 framleiddu þessar þjóðir 5000 tonn af síldarhrognum fyrir Japansmarkað. Framleiðsla þessara þjóða á síldarhrognum verður aukin ef það kemur til loðnubrests á árinu 2020 á Íslandi, þ.e. ef það verður hráefnisskortur á mörkuðum. Norskir framleiðendur stefna einnig á að framleiða síldarhrogn úr norsk-íslenskri síld í febrúar og mars 2020. Það magn kemur þá til viðbótar við framleitt magn úr Norðursjó.
Japanskir kaupendur vonast til þess að hægt verði að gefa út a.m.k. 100 þús. tonna loðnukvóta á Íslandi árið 2020. 50 þús. tonn þarf til að framleiða 10 þús. tonn af hrognafullri kvenloðnu og 50 þús. tonn þarf til að framleiða 5 þús. tonn af loðnuhrognum, sem er nægilegt magn til að viðhalda mörkuðum.
Umræða um loðnuhrogn var fyrirferðarmikil. Hiroshi Yamazaki fulltrúa Maruha var spurður um gæði loðnuhrogna. Að hans mati eru mestu gæðin í loðnuhrognum frá Vestmannaeyjum. Ástæðuna taldi hann vera nálægð Vestmannaeyja við fiskimiðin þegar loðnan hentar best til hrognatöku. Nálgæðin skiptir miklu máli varðandi ferskleika. Einnig kom fram hjá honum að vinnsluaðferðir og búnaður væri betri í Vestmannaeyjum en annarsstaðar á landinu, sem skilaði sér í betri afurðum. Vörumerkjaímynd Vestmannaeyja í framleiðslu á loðnuhrognum eru sú sterkasta meðal japanskra kaupenda að hans mati.
Í máli Japanana kom fram að íslenska loðnan er að seljast á hærri verðum heldur en sú norska. Ein skýringin er sú að loðnan við Ísland er heldur stærri en sú norska. Loðna frá Kanada hefur svo verið ódýrust. Óstöðugleiki í framboði á loðnu frá Noregi hefur gert Norðmönnum erfitt fyrir að tryggja stöðu sína á markaði og endurnýja framleiðslutæki sín. Það hefur skilað sér í lægra verðum en íslenskir framleiðendur fá.
Japanarnir hafa einnig verið spurðir hvort að loðna frá Kanada geti komið í stað loðnu frá Íslandi. Í máli þeirra kom fram að loðna frá Íslandi er feitari en sú sem veiðist við Kanada. Japanir þekkja bragðið á loðnunni frá Íslandi og líkar það vel. Japanskir fiskframleiðendur eru hræddir við að taka magrari loðnu inn á Japansmarkað en þá íslensku. Magrari loðna getur valdið vonbrigðum meðal viðskiptavina með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á framtíðarsölu loðnuafurða. Mögulega verður frekar farin sú leið að bjóða ekki upp á loðnu frekar en að taka loðnu frá Kanada.
Ef til vöruskorts kemur með loðnuafurðir þá getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Framboð á loðnuafurðum frá Íslandi hefur verið mjög stöðugt og afhendingaröryggið mikið. Það hefur skapað loðnuafurðum sterka stöðu á mörkuðum, skilað háu verði og miklum tekjum fyrir Ísland. Þrátt fyrir sveiflur í loðnuveiðum í gegnum tíðina þá hafa japanskir kaupendur aldrei áður staðið frammi fyrir jafn alvarlegum vöruskorti á loðnuafurðum, enda í fyrsta skipti sem loðnuveiðar eru ekki heimilaðar við Ísland tvö ár í röð. Loðnubrestur í Noregi á sama tíma hefur ekki bætt ástandið.
Í máli Japanana kom fram að það getur tekið langan tíma, eða um 6 – 12 mánuði að skipta út vörum sem aðilar á markaði hafa samþykkt og taka jafnframt inn nýjar afurðir til samþykktar, s.s. í matvöruverslunum. Kostnaður samfara því getur verið mikill og viðskiptavinir gætu mögulega hætt að kaupa vörur sem koma að nýju inn á markað eftir vöruskort. Staðan er því mjög viðkvæm.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja þakkar japönsku aðilunum fyrir góð erindi og áhugaverðar umræður. Vinnslustöðinni er einnig þakkað fyrir þeirra aðstoð.
Næsta sjávarútvegserindi er fyrirhugað í febrúar þegar loðnusérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar munu koma til Vestmannaeyja til að halda erindi í Þekkingarsetrinu. Leit að loðnu stendur nú yfir við Íslandsstrendur. Vonandi hafa sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar góðar fréttir að færa.
Hér er hægt að nálgast fjölmiðlaumfjöllun um erindið: Fiskifréttir 30. janúar 2020
Glærur á pdf formi: