Tæplega 30 á hádegiserindi í Þekkingarsetrinu á Zoom. Þóroddur Bjarnason. Sjávarútvegur og þróun sjávarbyggða á Íslandi
Fimmtudaginn 15. október kl. 12:00 hélt Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri áhugavert erindi sem ber heitið Sjávarútvegur og þróun sjávarbyggða á Íslandi. Þóroddur hefur haldið fjölmörg stórskemmtileg og hressandi erindi þar sem hann veltir upp áhugaverðum vinklum um byggðamál. Tæplega 30 manns tóku þátt í þessari tilraun sem gekk ótrúlega vel. Fólk allstaðar af landinu hlýddi á Þórodd og tók þátt í erindinu.
Í tæp 3 ár hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg, þar sem tæplega 130 aðilum sem tengjast sjávarútvegi í Eyjum er boðin þátttaka. Ein afleiðing COVID19 er sú að við höfum þurft að gera hlé á erindum að mestu leyti á árinu 2020. Við vildum reyna að halda vettvanginum lifandi og viljum því gera tilraun með að færa okkur yfir á internetið meðan ástandið er eins og það er. Við ætlum að nota ZOOM fjarfundaforritið til að eiga samskipti, í staðinn fyrir að hittast í Þekkingarsetrinu.
Um erindið: Íslenskar sjávarbyggðir uxu hratt á fyrri hluta tuttugustu aldar en á síðustu áratugum aldarinnar snérist þróun þeirra til verri vegar. Í almennri umræðu hefur því ýmist verið haldið fram að hnignun íslenskra sjávarbyggða sé að mestu leyti vegna innleiðingu kvótakerfisins eða að mestu leyti vegna þátta á borð við tæknivæðingu, erfiðar samgöngur og breyttar kröfur til afþreyingar og þjónustu sem grafið hafi undan dreifðum byggðum um allan heim. Í þessu erindi er mun margþættari tilurð og þróun íslenskra sjávarbyggða rakin og reynt að skyggnast inn í framtíð íslenskra sjávarbyggða með áherslu á áskoranir og tækifæri Vestmannaeyja.
Þóroddur var m.a. formaður starfshóps sem hafði það hlutverk að endurskoða meðferð og ráðstöfun aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir og nýttir eru m.a. til byggðaaðgerða. Í upphafi ársins skilaði starfshópurinn tillögum sínum. Um er að ræða 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund sem tekið er til hliðar fyrir úthlutun aflamarks og er ráðstafað að nýju sem atvinnu- og byggðakvótar.
Erindið er hluti af mánaðarlegum erindum um sjávarútvegsmál sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja heldur fyrir aðila í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum og þetta erindi hið nítjánda í röðinni frá upphafi. Fyrri sjávarútvegserindi er hægt að sjá á heimsíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja: https://www.setur.is/gagnasofn/erindi
Fiskifréttir fjölluðu um erindið þann 21. október 2020 – sjá hér