Í rúm 3 ár hefur Þekkingarsetur Vestmannaeyja staðið fyrir mánaðarlegum erindum um sjávarútveg sjá hér. Síðustu mánuði hafa erindin farið fram á Zoom. Erindin eru öllum opin og allir geta tekið þátt. Verið er að höfða til fjölbreytts hóps sem tengist sjávarútveginum.
Miðvikudaginn, 28. apríl kl. 12:00 verður haldið erindi sem ber heitið Íslenskur sjávarútvegur í hnotskurn – Raunveruleikinn og áskoranir.
Aðalframsögumaður verður Eyjamaðurinn Hörður Sævaldsson, Lektor við Sjávarútvegsfræðibraut Háskólans á Akureyri. Hörður hefur um langt árabil kennt sjávarútvegsfræðinemum við Háskólann á Akureyri auk þess sem hann hefur kennt við Háskóla Íslands og Sjávarútvegsfræðiháskóla Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur einnig verið gestakennari við ýmsa erlenda háskóla. Sjávarútvegurinn hefur verið sérsvið Harðar, ekki síst sá íslenski, þar sem hann hefur stundað ýmsar áhugaverðar rannsóknir.
Í erindi sínu mun Hörður fara yfir stöðu Íslands meðal helstu fiskveiðiþjóða, auk þess að velta upp helstu áskorunum í virðiskeðju uppsjávar- og botnfiska á Íslandi. Hörður mun setja sjávarútveginn í samhengi við mannfjölda og þá þéttbýlisvæðingu sem hefur átt sér stað um langt skeið í heiminum. Hann mun ræða um framboð á próteini úr sjávarútvegi og hvernig fiskeldi hefur leyst vanda margra þjóða . Hörður mun einnig ræða þá samkeppni sem íslenskir aðilar standa frammi fyrir á alþjóðamörkuðum með hvítfisk. Þessi umræðuefni mun hann síðan tengja við ýmis málefni tengdum íslenskum sjávarútvegi og setja hlutina í samhengi.
Við lofum spennandi, fjölbreyttu, áhugaverðu og alþjóðlegu erindi sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Gestir erindisins eru hvattir til að spyrja spurninga meðan á erindinu stendur – enda er það eitt af markmiðum erindanna.
Þeir sem vilja fá tilkynningar um erindin, s.s. áminningar og samantektir geta sent tölvupóst á mig á hrafn@setur.is og mun ég þá bæta viðkomandi á póstlista
Ef þið vitið um áhugasama aðila um málefnið þá er kærkomið að koma þessum skilaboðum til viðkomandi
Erindið verður á Zoom-tenglinum: https://us02web.zoom.us/j/87588658474?pwd=cFp4WXJRVDI1bzV5ak9tL2tXVXI1Zz09
Tími: Miðvikudagurinn 28. apríl, kl. 12:00. Þátttakendur geta tengst frá kl. 11.45. Erindinu mun ljúka stundvíslega kl. 13:00
Sjáumst á ZOOM