Þriðjudaginn 25. apríl var haldin starfakynning í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Þar kynntu starfsmenn fyrirtækja og stofnana í Vestmannaeyjum störf sín og þá menntun sem þeir hafa, í þetta sinn voru 65 störf kynnt. Markmiðið með kynningunni var að auka þekkingu fólks á hinum ýmsu störfum og þeirri menntun sem liggur á bak við þau. Um morguninn komu nemendur úr níunda og tíunda bekk GRV en eftir hádegi áttu nemendur FÍV og almenningur kost á því að koma og kynna sér störfin. Góð mæting var á starfakynninguna og var almenn ánægja með hana bæði meðal gesta og þeirra sem kynntu störfin. Þetta er í annað skiptið sem kynningin er haldin og hefur Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja leitt verkefnið frá upphafi. Í ár var verkefnið styrkt af SASS sem eitt af áhersluverkefnum hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands.