Seint í gærkveldi barst tilkynning til starfsmanns Sæheima um að stór Smokkfiskur væri á svamli í höfninni. Fór starfsmaður ásamt Einari Sigurmundssyni sem fyrstur kom auga á smokkfiskinn út á tuðru til að skoða hvort hægt væri að klófesta hann fyrir safnið. Smokkfiskurinn hafði svamlað þarna í höfninni í nokkurn tíma og fjölmargir vegfarendur stoppuðu til að fylgjast með gangi mála.
Þegar þeir félagar nálguðust smokkfiskinn reyndist hann hinn rólegasti og háfuðu þeir hann upp í kar sem þeir höfðu meðferðis. Smokkfiskurinn mótmælti að ,,kolkrabba sið“ og sendi blek gusu í átt að forvitnum vegfarendum. Farið var með smokkfiskinn í Sæheima þar sem hann var settur í eitt að búrum safnsins.