Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja, í samstarfi við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og Grunnskóla Vestmannaeyja mun halda starfakynningu þriðjudaginn 24. apríl frá kl. 10:00 -15:00 í nýju húsnæði Þekkingarseturs Vestmannaeyja að Ægisgötu 2. Þar verður lögð áhersla á að kynna fyrir nemendum 9. og 10.bekkjar og framhaldsskólanemendum, sem og öðrum bæjarbúum, fjölbreytileika starfa í Vestmannaeyjum þar sem krafist er menntunar. Starfakynningin er styrkt af SASS, er áhersluverkefni hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
Um morguninn verður kynning fyrir 9. og 10.bekk og eftir hádegi verður opið fyrir almenning og nemendur í FÍV. Áætlað er að kynna milli 50-60 störf á þessum degi og verða flest öll þessara starfa kynnt af heimafólki sem gefur til kynna fjölbreytt atvinnulíf í Vestmannaeyjum.
Síðast var svona kynning haldin í Framhaldsskólanum árið 2015 og var mikil ánægja með hve vel tókst til þá, því þótti ástæða til að endurtaka leikinn í ár.