Síðastliðinn mánudag átti Þekkingarsetur Vestmannaeyja stefnumót við atvinnulífið. Stefnumótið fór fram í Alþýðuhúsinu og verður að segjast að það hafi tekist með ágætum. Markmiðið með stefnumótinu var að kynna þá starfsemi sem fram fer í Þekkingarsetrinu og opna á nýja samstarfsfleti milli Þekkingarseturs og atvinnulífsins.
Dagskráin hófst með því að allar stofnanir innan Setursins kynntu starfsemi sína og verkefni sem þar eru í vinnslu eða undirbúningi. Ljóst er að verkefnin eru fjölmörg og viðfangsefnið fjölbreytt. Yfir fjörutíu verkefni eru í vinnslu eða undirbúningi innan Setursins miðað við upptalningu á helstu verkefnum stofnanna á fundinum.
Eftir kynningu á starfsemi stofnananna var salnum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem fjölluðu um málefni sem tengjast atvinnulífinu og starfseminni innan Þekkingarsetursins. Málefnin voru
Sjávarútvegur og atvinnumál
Náttúra og ferðamennska
Menntun
Fyrir hvern hóp var búið að útbúa leiðbeinandi spurningar til að koma umræðunum af stað en hér að neðan kemur samantekt fyrir hvern hóp.
1. Umræðuhópur um sjávarútveg og atvinnumál
Farið var almennt yfir punktana sem lagðir voru fyrir hópinn.
Söluskrifstofa
Rædd var hugmynd um sameiginlega söluskrifstofu fyrir sjávarútvegin í Eyjum. Fram kom að fyrirtækin eru að greiða aðilum í Rvík umboðslaun þannig að með því að setja upp sameiginlega söluskrifstofu kæmu þau störf hingað. Áhugi fyrir slíkri söluskrifstofu er væntanlega háður stærð fyrirtækjanna.
Local food
Hugtakið Local food var rætt og að allur fiskur frá Vestmannaeyjum fengi ákveðin gæðastimpil. Þetta gæti tengst sameiginlegri söluskrifstofu. Þannig að hvert fyrirtæki gæti selt undir sýnu vörumerki en með Local food gæðastimpil. Spurning hvort að Eyjarnar eru of litlar fyrir branding. Vandamál gætu einnig komið varðandi mismunandi gæði milli fyrirtækja, gæti nýst í öðrum atvinnugeirum.
Verkefnabankinn
Verkefnabankinn mældist vel fyrir og var ÞSV hvatt til að hafa hann opinn á heimasíðunni. Ræddur var höfundar réttur á hugmyndum í bankanum. Ljóst er að með því að setja inn hugmynd í bankann afsalar viðkomandi aðili sér ákveðnum réttundum. En þetta þarf að vera á hreinu þegar hugmyndir eru lagðar inn í bankann og setja þarf upp reglur eða upplýsingar á netið um það.
Tengsl Þekkingarseturs og atvinnulífsins
Rætt var um tengsl á milli ÞSV og atvinnulífsins og leiðir til að auka þau. Hvatt var til að finna fleiri tækifæri til að hittast og jafnvel að halda óformlega fundi, s.s. súpufundi, til að bera saman bækur og vinna að hugmyndum. Nauðsynlegt er að halda lifandi tengslum með reglulegum fundum.
Samstarf
Rætt var mikilvægi samstarfs milli Þekkingarseturs og atvinnulífs. Fjölmörg samstarfsverkefni eru nú þegar í gangi þar sem slíkt samstarf er í gangi. Dæmi má nefna verkefni á vegum Matís um þurrkun loðnuhrogna og markaðssetningu á harðfisk.
2. Umræðuhópur um náttúru og ferðamenn
Hingað til hefur lundi og eldgos verið aðalaðdráttarafl ferðamanna í Vestmannaeyjum.
Í ÞSV er mikil þekking/menntun, sem gæti nýst atvinnulífinu. Samstarf þar á milli er mikilvægt.
Ferðamenn til Eyja
Erlendir ferðamenn í Leifsstöð um 500 þús. á ári. Þar af eru um 80% tengifarþegar milli fluga. Þ.a.l. um 100 þús. ferðamenn sem koma til að ferðast um landið.
Til Vestmannaeyja koma um 10-15 þús. ferðamenn.
Skemmtiferðaskip eru að meðaltali um 14 á hverju sumri.
Ekki hefur verið beint fjölgun í komum ferðamanna til Eyja. Þarf að auka við afþreyingu, til að ferðamenn stoppi lengur.
Ferðamáti til og frá Eyjum
Hugmyndir um flug á milli Vestmannaeyja og Akureyrar, sem auka ýmsa möguleika í ferðaþjónustu.
Tilkoma Bakkafjöru tengir Eyjar við Suðurland og þar skapast nýjir möguleikar.
Erfitt að skipuleggja ferðir í Eyjum ef miðað er við að ferðamenn komi með flugi til Eyja, þar sem flugið fellur oft niður.
Þyrluflug annar kostur fyrir efnameiri ferðamenn. Þyrluflug út í og yfir Eyjarnar.
Útsýnisflug yfir Eyjarnar.
Náttúrufræðsla fyrir skólahópa
Breskir skólahópar voru að koma til Eyja í febrúar, aðallega jarðfræðiferðir. Gerð var markaðssetning á skólahópum frá Bretlandi til V.eyja og kom 10. bekkur best út. Um 500 þús. börn eru í 10. bekk í Bretlandi.
Annað slagið berast fyrirspurnir að utan frá stúdentahópum í framhaldsskólum sem vilja koma í sérstakar fræðsluferðir til Eyja.
Þekkingarsetur og skóli, erlendir ferðamenn eða skólahópar koma í þekkingarleit, fræðsluferðir osfrv.
Áður voru 2000 íslensk skólabörn sem komu árlega til Eyja. Núna eru þau um 800 (40×20). Þessir skólahópar þurfa gistinu og mat í Eyjum. Hvernig er hægt að auka aftur komur íslenskra skólabarna til Eyja?
Menningarhús, sædýrasafn
Fjárframlög í menningarhús. Um 200 millj. eru til og síðan framlag ríkisins. Gömul hugmynd um menningarhús, en hugmynd um Eldheima, Sæheima og Sagnheima varð til 2008. Fjármagn vantar.
Spurning um að setja fjármagn í eitt áhugavert safn og gera það vel?
Dæmi tekið um Sædýrasafnið í Hirtshals fiskasafn og fræðasetur sem 5 millj. manns heimsækja árlega. Þar eru auk sýningasala, stundaðar rannsóknir, fræðsla og þar er glæsilegur fyrirlestrarsalur.
Finna fjárfesta sem vilja kosta uppbyggingu á safni. Spurning hvort fiskasafn hafi nægilegt aðdráttarafl fyrir fjárfesta á Íslandi? Eru fjárfestar reiðubúnir í dag, miðað við núverandi ástand, að leggja peninga í safn?
Sjóstangveiði, siglingar, úteyjar.
Markaðssetning í gangi og ferðamenn hafa lýst miklum áhuga, enda veiðist vel. Veðurfar setur oft strik í reikninginn.
Sigling um úteyjarnar, sjóstangaveiði og aflinn borðaður þegar komið er í land.
Úteyjar, markaðssetning fyrir efnameira fólk. Oft erfitt með tryggingarmál, því um leið og ferðamaðurinn stígur af bátnum sem flytur hann út í eyju, verður einhver að taka við ábyrgð á öryggi hans.
Siglingar og náttúrutengd fræðsla.
Sigling umhverfis Surtsey er of langt ferðalag. Ferðamenn verða sjóveikir.
Fuglaskoðun, ljósmyndaferðir
Lundinn hefur alltaf verið vinsæll. Skólakrökkum boðið að fylgjast með lundapysjum á haustin. Nú hefur ástandið breyst. Skrofur gætu verið ónýtt tækifæri, eru að verpa á haustin og eru sjaldgæfar nema í Vestmannaeyjum.
Skipulagðar fuglaskoðunarferðir í Eyjum. Yfir 3 millj. fuglaskoðarar bara í Bretlandi. Mikið um fuglaáhugamenn allsstaðar.
Súlukastið alltaf tilkomumikið og þarf ekki að fara langt til að fylgjast með því. Mikið af súlu nú í höfninni, spurning hvað það verður lengi.
Sérstakar ljósmyndaferðir skipulagðar í náttúru Vestmannaeyja.
Samstarf við ferðaþjónustur á Suðurlandi: Safaríferðir ljósmyndaferðir, náttúruskoðun, fuglaskoðun. Hópar sóttir út í Leifsstöð og farið með þá í skipulagða nokkra daga ferð. Keflavík Suðurland Vestmannaeyjar. Möguleikar sem skapast með Bakkaferju.
Handverk og skemmtiferðaskip
Söluborð niður við höfn þegar skemmtiferðaskipin koma. Sala á minjagripum, íslensku handverki, matargerð osfrv. Vitað er fyrirfram hvenær skammiferðaskipin koma til Eyja og því getur handverksfólk verið tilbúið með varning sinn. Þetta hefur tekist vel t.d. á Ísafirði.
Annað
Sumardagskrá í Vestmannaeyjum. Útfrá henni geta ferðamenn skipulagt ferðir sínar betur til Eyja og tekið þátt í ýmiskonar afþreyingum sem í boði eru. Nú þegar er mikið í gangi út í Eyjum yfir sumartíma. Goslokahátíð, Þjóðhátíð, Golfmót ofl. Einnig getur verið erfitt að setja upp dagskrá þegar fjöldi ferðamanna er óþekkt stærð. Stundum eru of fáir til að fara í ferð eða of margir til að hægt sé að anna eftirspurn.
Útileikhús. Skólakrakkar fengnir til að leika gamla tímann t.d. að sólþurrka saltfisk, eða sýna gamalt handverk. [Hvað með Herjólfsbæinn? Væri hægt að hafa þar landnámsfólk við leik og störf á góðum sumardögum, eða skipulagt t.d. af áhugaleikfélagi, fyrir ferðamannahópa? Húsdýr á hlaðinu osfrv. Viðb. LA]
3. Menntun
Tengsl atvinnulífs og Þekkingarseturs
Varðandi spurningu um tengsl atvinnulífs og Þekkingarseturs var það helst niðurstaða að Setrið þyrfti að auka enn á kynningu og sýnileika stofnana sinna.
Hugmyndir að nýjum verkefnum og uppvakningu gamalla
Íþróttaakademía í samstarfi FíV og ÍBV? Vilji beggja aðila er fyrir hendi og framkvæmdin e.t.v. öðru fremur undir því komin að fram komi eldhugi sem dragi vagninn!
Samstarf sjávarrannsókna Þs./Sæheima við FÍV og GrV? Gæti orðið öllum aðilum mjög til framdráttar og aukið á sérstöðu skólanna.
Surtseyjarstofa og Viska gætu sem best útbúið náms- og/eða kynningartilboð, sem hópum (grunn-, framhalds-, háskólanema eða…) væri akkur í að sækja.
Námspakkar (sbr. Liðin hér að ofan) sem tækju á öðru en Surtsey, t.d. fuglalífi og jarðsögu.
Nátengt c og d var hugmynd um að nýta Tyrkjarán og Heimaeyjargos sem efnivið námspakka og aðdráttarafl.
Viðburðastjórnun? Væri e.t.v. unnt að endurvekja hugmyndina um nám í viðburðastjórnun, sem m.a. myndi byggja á áralangri reynslu Vestmannaeyinga í hvers konar móts, og/eða samkomuhaldi (Þjóðhátíð, Goslokahátíð, Þrettándagleði…)
Verkefnabankinn
Umræðuhópnum fannst hugmyndin um verkefnabanka á heimasíðu Þekkingarsetur afbragðs leið til varðveislu og dreifingar hugmynda. Þar gætu menn hvort heldur lagt inn eða tekið út hugmyndir.
Undir lok umræðunnar voru menn almennt sammála um að auknir möguleikar til fjarnáms væru þegar jákvæður kostur sem mætti þó auka.
Og að síðustu, þá væri full ástæða fyrir þátttakendur að hittast aftur (og aftur?) til frekari umræðna.
Næstu skref
Í kjölfarið á þessum kynningarfundi mun Þekkingarsetrið halda hugarflugsfundi þar sem hvert málefni verður tekið fyrir og rætt frekar. Þessir fundir verða einnig opnir þannig að enn er hægt að taka þátt og koma með innlegg í umræðuna. Búið er að opna verkefnabankann á netinu og er hann á heimasíðu Setursins, www.setur.is. Bein slóð er https://www.setur.is/main.php?p=100&i=50 . Bankinn er enn í þróun en hægt er að senda inn hugmyndir að verkefnum og munu þær birtast á vefnum um leið og búið er að kanna hvort upplýsingar um viðkomandi verkefni séu réttar.